Islanda

Einkunnir úr leik Liverpool og Manchester United: Van Dijk bestur

DV - 37 min 8 sec fa

Liverpool vann sterkan heimasigur í ensku úrvalsdeildinni í dag er liðið mætti Manchester United.

Leikið var á Anfield en þeir Virgil van Dijk og Mohamed Salah sáu um að skora mörk heimamanna í 2-0 sigri.

Hér má sjá einkunnir leiksins frá Mirror.

Liverpool:
Alisson 6
Alexander-Arnold 7
Gomez 7
Van Dijk 8
Robertson 7
Henderson 7
Wijnaldum 7
Oxlade-Chamberlain 7
Salah 8
Firmino 7
Mane 7

Varamenn:
Lallana 6

Manchester United:

De Gea 7
Wan-Bissaka 6
Lindelof 6
Maguire 6
Shaw 7
Williams 7
Fred 7
Matic 7
Pereira 6
James 6
Martial 5

Categorie: Islanda

Sjáðu atvikið: De Gea aldrei verið eins reiður – Öskraði á dómarann

DV - 42 min 50 sec fa

David de Gea, markvörður Manchester United, sturlaðist í dag í leik gegn Liverpool.

United þurfti að sætta sig við tap á Anfield en heimamenn höfðu betur að lokum, 2-0.

Það var dæmt mark af Liverpool í stöðunni 1-0 en Virgil van Dijk var dæmdur brotlegur á De Gea.

Það var VAR sem ákvað að dæma markið af en fyrir það þá lét Spánverjinn dómara leiksins heyra það.

De Gea var pottþéttur á því að um brot hafi verið að ræða eins og sjá má hér.

Goal Disallowed. Angriest I’ve ever seen De Gea #MUNLIV pic.twitter.com/UIGmdLeOwQ

— ً (@UtdJustin) 19 January 2020

Categorie: Islanda

Balotelli minnti á sig í fyrsta leik Birkis

DV - 46 min 37 sec fa

Birkir Bjarnason lék sinn fyrsta leik fyrir Brescia í dag er liðið mætti Cagliari á Ítalíu.

Birkir er nýgenginn í raðir Brescia en hann kom á frjálsri sölu eftir stutta dvöl í Katar.

Okkar maður spilaði seinni hálfleikinn fyrir Brescia sem gerði 2-2 jafntefli á heimavelli.

Hinn umdeildi Mario Balotelli minnti á sig í jafnteflinu en hann er nú liðsfélagi Birkis.

Baloteli fékk beint rautt spjald á 81. mínútu í stöðunni 2-2 og strunsaði í kjölfarið af velli.

Categorie: Islanda

Van Dijk og Salah kláruðu Manchester United á Anfield

DV - 53 min 38 sec fa

Liverpool 2-0 Manchester United
1-0 Virgil van Dijk(14′)
2-0 Mo Salah(93′)

Stórleik helgarinnar á Englandi er nú lokið en það fór fram rígur á Anfield í Liverpool borg.

Liverpool fékk þar Manchester United í heimsókn og tókst að hefna fyrir eina jafnteflið á tímabilinu.

Liverpool væri með fullt hús stiga í deildinni ef það væri ekki fyrir eitt jafntefli gegn United fyrr í vetur.

Það voru tvö mörk skoruð á Anfield en það voru heimamenn sem gerðu þau bæði, snemma og seint í leiknum.

Virgil van Dijk skoraði það fyrra á 14. mínútu en í blálokin bætti Mo Salah við öðru.

Liverpool er með öruggt 16 stiga forskot á toppi deildarinnar og á einnig leik til góða.

United er í fimmta sætinu, fimm stigum á eftir Chelsea sem situr í því fjórða.

Categorie: Islanda

Óvæntar fréttir af máli Emilie Meng – Lögreglan safnar DNA-sýnum

DV - 1 ora 15 min fa
Danska lögreglan hefur að undanförnu safnað lífsýnum úr ungum mönnum, sem búa við Motalavej í Korsør, í tengslum við rannsóknina á hvarfi og morðinu á Emilie Meng þann 10. júlí 2016. Lögreglunni hefur fram að þessu ekki orðið neitt ágengt við rannsókn málsins sem þykir ákaflega dularfullt.

Motalavej er eitt af svokölluðum gettóum í Danmörku þar sem mörg félagsleg vandamál eru uppi og hlutfall innflytjenda er hátt. Samkvæmt frétt TV2 þá sagði þroskaheftur maður lögreglunni að piltar úr hverfinu hefðu tekið Emilie. Þetta sagði hann lögreglunni sama dag og Emilie hvarf. Maðurinn býr á Motalavej, við göngustíginn þar sem Emilie hvarf.

Í heimildamynd Danska ríkisútvarpsins um málið sagði maðurinn að hann hafi heyrt stúlku öskra þennan morgun og segja „halló“ hátt. Þetta sagðist hann hafa sagt lögreglunni og að „strákarnir hefðu tekið hana“. Lögreglan staðfesti að maðurinn hefði sagt þetta.

Lögreglan hefur kallað fjölda ungra manna úr hverfinu til skýrslutöku að undanförnu og farið fram á að þeir láti lífsýni í té. Lögreglan vill ekki svara hvort þetta tengist framburði þroskahefta mannsins.

Eins og fyrr segir hvarf Emilie að morgni 10. júlí 2016 þegar hún var á leið heim eftir næturskemmtun með vinkonum sínum. Lík hennar fannst í vatni við Regnemarks Bakke við Borup á aðfangadag 2016.

Categorie: Islanda

Dauðvona Laddi og Bubbi leikur sjálfan sig

DV - 1 ora 45 min fa

Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsárið nýja er komið í gang og gaf kvikmyndin Gullregn frá Ragnari Bragasyni tóninn fyrir þann hafsjó af íslensku efni sem bíður landsfmanna. Fjölbreytni virðist vera í fyrirrúmi þetta árið og er útlit fyrir að eitthvað sé í boði fyrir hvern og einn.

Þetta er brot af því helsta sem landsmenn mega vænta á skjánum, stóra sem smáa.

 

Alma

Kvikmyndin Alma er úr smiðju Kristínar Jóhannesdóttur, sem skrifar handritið og leikstýrir. Myndin er örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn. Þau Snæfríður Ingvarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær Guðnason eru á meðal þeirra sem skjáinn prýða. Alma er væntanleg í febrúar.

 

Síðasta veiðiferðin

Það er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja, en hér er sagt frá vinahópi sem fer í sinn árlega veiðitúr. Brátt þróast mál þannig að allt fer á versta veg, eins og sæmir í góðri framvindu. Síðasta veiðiferðin skartar kunnuglegum andlitum og ættu þau að vekja kátínu hjá þeim sem tengja sig við umrædda hrakfallabálka sögunnar. Þess má geta að Bubbi Morthens leikur sjálfan sig í myndinni.

 

Jarðarförin mín

Jarðarförin mín er gráglettin gamanþáttaröð þar sem Þórhallur Sigurðsson, sjálfur Laddi, leikur mann sem greinist með ólæknandi heilaæxli sama dag og hann kemst á eftirlaun. Andspænis dauðanum áttar hann sig á því að hann hefur lifað fánýtu lífi og sóað dýrmætum tíma, áratugum, í tilgangsleysi.

 

Skuggahverfið

Skuggahverfið er samstarfsverkefni þeirra Jóns Gústafssonar og Karolinu Leqicka. Í þessum dramatrylli segir frá ungri konu sem erfir hús ömmu sinnar sem hún hitti aldrei, í borg sem hún hefur aldrei séð. Í trássi við vilja móður sinnar leggur hún í ferðalag til að ná skilningi á sársauka fortíðarinnar, en með þeirri ákvörðun veldur hún uppnámi og róti sem hún kemst ekki lifandi frá nema með aðstoð látinna forfeðra og -mæðra.

 

Dýrið

María og Ingvar búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik. Myndinni er leikstýrt af Valdimari Jóhannssyni og skrifar hann handritið ásamt hinum góðkunna Sjón.

 

Þar sem vondir verða að vera

Ný kvikmynd úr smiðju uppistandarans Sigurðar Antons Friðþjófssonar, sem gerði kvikmyndirnar Webcam og Snjór og Salóme. Ekki er vitað mikið um söguþráð myndarinnar að svo stöddu en að henni kemur megnið af teyminu sem vann að ofannefndum myndum. Með hlutverk fara þau Sonja Rut Valdin, Pétur Óskar Sigurðsson, Anna Hafþórsdóttir og Júlí Heiðar Halldórsson.

 

Ráðherrann

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið í Ráðherranum, nýrri þáttaröð sem framleidd er af Sagafilm. Þegar forsætisráðherra greinist með geðhvarfasýki þarf aðstoðarmaður hans að leggja bæði stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til þess að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni. Framleiðslukostnaður þáttanna er um 675 milljónir króna. Handritaskrif eru í höndum Birkis Blæs Ingólfssonar, Bjargar Magnúsdóttur og Jónasar Margeirs Ingólfssonar.

 

Magaluf

Magaluf er gamanþáttaröð í leikstjórn Magnúsar Leifssonar og gerist árið 1979. Í aðalhlutverki verður Steindi Jr. sem leikur plötusnúð á skemmtistaðnum Hollywood sem gerist fararstjóri í Spánarferð til að endurheimta æskuástina. Ragnar Bragason skrifaði handritið ásamt Magnúsi og Snjólaugu Lúðvíksdóttur.

Categorie: Islanda

Konu gefin hafragrautur í hundaskál og látin sofa á gólfinu

DV - 3 ore 15 min fa
Í mars á síðasta ári bjargaði danska lögreglan 24 ára konu sem haldið fanginni á samyrkjubúi í bænum Højslev á Jótlandi. Talið er að ástæður þess að konunni var haldið í einangrun á samyrkjubúinu, þar sem hún lifði af vatni og hafragraut, hafi verið þær að slitnað hafi uppúr sambandi hennar og eins hinna ákærðu.

Fimm hafa verið handtekin vegna málsins og eru þau meðal annars ákærð fyrir ofbeldi og frelsissviptingu. Málið var tekið fyrir í réttinum í Viborg á mánudag.

28 ára gamall karlmaður, sem grunaður er um að vera höfuðpaurinn í málinu, vildi ekki skýra mál sitt fyrir rétti. Maðurinn, sem er sterkbyggður og var íklæddur víðri, dökkri skyrtu, hristi höfuðið þegar hann var spurður hvort hann vildi útskýra mál sitt. Þess í stað las Pia Kouldahl, saksóknari í málinu, upp yfirlýsingu frá manninum. Í yfirlýsingunni segir hinn ákærði að hann hafi búið með hinni 24 ára gömlu konu og þremur hinna ákærðu á samyrkjubúi í þorpinu Højslev.

Hann viðurkennir að hafa slegið konuna og segist hafa gert það vegna þess að hún hafi gert lítið úr honum. Auk þess hefði konan ekki þekkt muninn á þínu og mínu og hafi verið staðin að því að stela meðal annars gosi og sælgæti af sambýlisfólki sínu. Þetta var að sögn mannsins ástæða þess að íbúarnir vildu útiloka konuna.

Þau læstu dyrunum, þannig að konan var lokuð af á gangi. Þegar kvöldverður var borinn fram mátti hún ekki sitja við borðið. Hinn grunaði skýrir frá því að hún hafi á tímabili lifað af hafragraut sem borinn var fram í hundaskál.

Konan svaf á gólfinu í herbergi mannsins. Hann vildi ekki fá hana upp í rúm vegna þess að hún var samkvæmt honum drulluskítug og blæddi mikið þegar hún var á blæðingum. Þau eiga saman tveggja ára gamlan son, sem settur hefur verið í fóstur. Það fór að grafa undan sambandi þeirra eftir fæðingu sonarins, segir hinn ákærði.

Lögeglan réðist inn á heimilið hinn 17. mars á síðasta ári eftir að fjölskyldumeðlimur eins hinna ákærðu hafði haft samband við lögregluna.

Konan var slösuð og vannærð þegar hún fannst. Læknar fundur 34 sár á líkama konunnar, það voru meðal annars merki um að hún hefði verði slegin og verið bitin af hundi. Lögreglan telur að maðurinn hafi oftar en einu sinni sigað hundi, sem er blanda af labrador og boxer, á konuna. Þessu neitar maðurinn, hann neitar einnig að hafa svipt konuna frelsi sínu en játar að hafa átt einhvern þátt í að beita hana ofbeldi.

Verði maðurinn dæmdur sekur gæti hann átt yfir höfði sér ótímabundinn dóm, en honum er aðeins beitt þegar hinir dæmdu teljast afar hættulegir.

Categorie: Islanda

Vardy klúðraði víti í óvæntu tapi Leicester

DV - 3 ore 21 min fa

Burnley 2-1 Leicester
0-1 Harvey Barnes(33′)
1-1 Chris Wood(56′)
2-1 Ashley Westwood(79′)

Burnley vann nokkuð óvæntan sigur í ensku úrvalsdeildinni í dag er liðið mætti Leicester City.

Leicester hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið og hafði tapað þremur af síðustu fimm deildarleikjunum.

Gestirnir komust yfir en Ashley Barnes skoraði mark fyrir Leicester á 33. mínútu og var staðan 0-1 í hálfleik.

Á 56. mínútu jafnaði Chris Wood metin fyrir Burnley áður en Leicester fékk dæmda vítaspyrnu.

Á punktinn fór Jamie Vardy en hann klikkaði eftir góða markvörslu Nick Pope.

Það var svo Ashley Westwood sem skoraði síðasta markið í leiknum fyrir Burnley til að tryggja dýrmætan 2-1 heimasigur.

Categorie: Islanda

Tveir menn rændu dreng í Langholtshverfi

DV - 3 ore 23 min fa

Stórvafasamir menn virðast vera á ferli í Langholtshverfi en frá þessu er grein í FB-hópi hverfisins. Móðir lýsir því hvernig tveir menn, líklega á fertugsaldri, hafi gefið sig á tal við son hennar nálægt Laugalækjarskóla. Þeir sýndu drengnum ljósmynd af vannærðu barni og sögðust verða að safna peningum  handa barninu. Drengurinn gaf þeim peninga sem hann var með á sér en mennirnir reyndu að neyða hann til að fara með sér í hraðbanka og leysa út peninga með debet-korti sínu. Tókst drengnum þá að flýja mennina. Komst hann heim og sagði móður sinni frá atvikinu. Birti hún frásögnina í FB-hópnum til að vara aðra foreldra við.

Mennirnir voru enskumælandi og virðast halda til á gistiheimili í hverfinu. Óljóst er af hvaða þjóðerni þeir eru. Annar þeirra var í fölbleiku jakka en nánari lýsingar er ekki að hafa af útliti þeirra.

 

 

Categorie: Islanda

Óréttlátur og óhagkvæmur húsnæðismarkaður

DV - 3 ore 37 min fa

Úr nokkuð óvæntri átt, í tímaritinu The Economist – sem er ekki laust við að aðhyllist kapítalisma – kemur umfjöllun um húsnæðismarkaðinn á Vesturlöndum þar sem segir að hann sé í raun ein stór mistök, stærstu mistökin í hagkerfinu. Húsnæðismarkaðurinn sé dragbítur á hagvöxt, hann sé óréttlátur og eyðileggi tiltrúna á kapítalisma.

Í þessari athyglisverðu forystugrein blaðsins er meðal annars fjallað um hversu  erfitt er fyrir ungt fólk og vinnandi fólk, sem þarf að komast inn í borgir til starfa, að eignast húsnæði á viðunnandi stað. Um endalaust brask með húsnæði, óeðlilegar verðhækkanir, drápsklyfjar húsnæðislána, og svo eldra fólk sem hefur eignast húsnæði á góðum tíma, haft af því óeðlilegan ábata þegar húsnæðisverð hækkar (windfall) en ástundar harðan NIMBY-isma gegn því að byggt sé fyrir útsýni þess. Þannig standa þeir sem hafa komið sér vel fyrir á húsnæðismarkaðnum í vegi hinna sem ná ekki fótfestu þar – og það sé ekki byggt nóg af húsnæði.

Í greininni er Þýskaland nefnt sem dæmi þar sem leigumarkaður er mjög virkur og þróaður og þar sem hækkanir á húsnæðisverði hafa ekki verið jafn miklar og víða annars staðar. Það er tæpt á því að inngrip ríkisvaldsins í húsnæðismarkaðinn, skattaafslættir og ívilnanir, geti haft þau áhrif að húsnæðisverð hækki einfaldlega enn meira.

Það er margt umhugsunarvert í þessu fyrir okkur hér á Fróni. Til dæmis má nefna Hafnartorg og íbúðir víða sem eru auglýstar sem lúxus og ætlunin er að selja á háu verði. Sú tilfinning ágerist að hugmyndin bak við þetta sé sú að kaupendurnir yrðu mestanpart erlent fólk sem vill festa fé sitt í húsnæði – fremur en til dæmis verðbréfum. Þetta er eitt einkenni hins braskvædda húsnæðismarkaðar, en virðist hugsanlega hafa verið skot langt yfir markið hér í Reykjavík.

 

Categorie: Islanda

Byrjunarlið Liverpool og Manchester United: Stórleikur á Anfield

DV - 3 ore 38 min fa

Það er stórleikur á dagskrá á Englandi í dag er lið Liverpool fær Manchester United í heimsókn á Anfield.

Liverpool hefur aðeins tapað stigum einu sinni í deildinni á tímabilinu og var það gegn United á Old Trafford.

Hér má sjá byrjunarlið dagsins.

Lverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Firmino

Man United : De Gea, Wan-Bissaka, Lindelof, Maguire, Shaw, Williams, Matic, Fred, Pereira, James, Martial

Categorie: Islanda

Upprisa hverfamenningar

DV - 4 ore 14 min fa

Landsmenn sækja það í auknum mæli að geta fengið alla grunnþjónustu í sínu heimahverfi. Hvort umhverfissjónarmið ráða þar för eða fortíðarþrá er óvíst um að segja, en ljóst er að hverfi höfuðborgarsvæðisins iða nú af lífi líkt og þau gerðu á síðari helmingi síðustu aldar. DV heimsótti tvö kaffihús í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sem eiga tvennt sameiginlegt; að vera starfrækt í kjörnum sem blómstruðu í anda mikils hnignunartímabils í íslenskri hverfamenningu og þar sem eigendur hafa það markmið að blása lífi í gömlu góðu hverfastemninguna.

Lítið vit í að fara á kaffihús nema manni líði vel þar Mynd: Eyþór Árnason

Gamla kaffihúsið opnaði í ágúst árið 2015 þegar hjónin Unnur Arna og Karl Víkingur ákváðu að opna kaffihús í gamla hverfinu þar sem þau ólust upp. Kveikjuna segja þau einfaldlega hafa verið viljann að prófa eitthvað nýtt.

Mynd: Eyþór Árnason Mynd: Eyþór Árnason

Þrátt fyrir að reksturinn gangi vel viðurkenna hjónin að hann hafi farið hægt af stað. „Já, það tekur tíma að byggja upp gott orðspor en með tímanum hefur það gengið sem er ánægjulegt að fylgjast með. Auðvitað er mikill munur á árstíðum þegar kemur að þessum iðnaði enda hefur veðrið mikið um það að segja hvort fólk sé í stuði að sitja úti og njóta kaffibollans. Það eru ekki allir sem treysta sér út í svona vonskuveður eins og við höfum fengið undanfarið svo eðlilega eru janúar og febrúar rólegir mánuðir. Fólk er svona að hrista af sér jólin.“

Mynd: Eyþór Árnason

Breiðholtið fullt af hjartahlýju fólki
Spurð um markhóp ítreka hjónin að auðvitað séu allir velkomnir á kaffihúsið.

„Við einsetjum okkur að bjóða eins lágt vöruverð og við getum til að tryggja að hingað geti fólk leitað hvenær sem er. Við erum svo heppin að eiga dyggan hóp fastakúnna sem kíkja við vikulega, sumir jafnvel daglega. Fjölmargir hópar koma hingað í hverri viku og eiga notalega stund en svo eru líka gestir sem mæta alltaf á sama tíma og eru nánast orðnir hluti af fjölskyldunni því við erum farin að þekkja marga af okkar viðskiptavinum mæta vel. Það sem einkennir okkar þjónustu er góður matur á sanngjörnu verði en eins leggjum við mikið upp úr hlýlegri og persónulegri þjónustu. Vinsælast á okkar matseðli er steikarlokan og nautasteikin en hvort tveggja fæst á undir þrjú þúsund krónum. Það gerist varla ódýrara. Við bjóðum fólki að kippa með sér bókum úr hillunum til að gera upplifunina sem notalegasta. Að okkar mati skiptir öllu máli að kaffihús þjóði upp á gott kaffi, góðan mat og ríka þjónustulund. Það er lítið vit í því að fara á kaffihús ef manni líður ekki vel þar.

Mynd: Eyþór Árnason

Okkur þykir virkilega vænt um að upplifa endurkomu hverfiskaffihúsanna og sjá hvernig hverfin eru að þróast. Hér hittist fólk af öllum vegum lífsins og leiðir saman hesta sína yfir einum kaffibolla. Það er einmitt kosturinn við lítil kaffihús, þetta persónulega sem þau hafa upp á að bjóða. Gamla kaffihúsið er alfarið rekið af okkur í fjölskyldunni með dyggri aðstoð góðra vina. Þetta er mjög þægilegt og virkar vel þar sem við vinnum öll einstaklega vel saman og þekkjum þar að leiðandi okkar viðskiptavini vel, flesta með nafni. Breiðholtið er fullt af hjartahlýju og einstöku fólki. Við hjónin höfum lengi verið í veitingabransanum og okkur hefur hvergi liðið jafn vel og hér. Hér hjálpast allir að, taka virkan þátt í hverfinu og vilja öllum vel.“

 

Veitingarekstur er að færast nær fólkinu Mynd: Eyþór Árnason

Tæpt ár er nú síðan kaffihúsið Brauðkaup var opnað, eða í febrúar á síðasta ári. Rúmu ári áður höfðu eigendur staðarins eignast húsnæðið að Borgarholtsbraut 19 með þann draum að hefja veitingarekstur þarna í tíð og tíma. Hugmyndin að Brauðkaup fæddist svo í desember 2018 en fyrst um sinn bara í litlu rými með súrdeigsbrauð, bakkelsi og kaffi.

Mynd: Eyþór Árnason

Þórólfur Heiðar Þorsteinsson, einn af sex hluthöfum staðarins, segir reksturinn hafa undið hægt og rólega upp á sig. „Í dag erum við með alla neðri hæðina í gangi fyrir alls kyns úrval af mat og góðgæti en við hófum sömuleiðis sölu á ís og hamborgurum í nóvember á síðasta ári. Bæði Kópavogsbúar og aðrir velunnarar hafa tekið einstaklega vel á móti okkur en auðvitað er munur á milli árstíða. Við höfum þó ekki verið það lengi í rekstri til að festa rækilega fingur á það en okkur grunar að sumarið verði tíminn.“

Mynd: Eyþór Árnason

Úrvalsmatur og notalegheit
Þórólfur segir staðinn alls ekki stíla meðvitað inn á neinn ákveðinn markhóp þótt markmiðið sé sannarlega það að mynda ákveðin fastapunkt í tilveru Kópavogsbúa. „Við hugsum þetta frekar að bjóða upp á notalegt umhverfi og gæðamat heldur en að höfða til einhvers eins markshóps. Okkur þykir vænt um alla og alls konar. Við eigum nú þegar flottan hóp af fastakúnnum en sömuleiðis aðdáendur á samfélagsmiðlum. Það sem einkennir okkar rekstur er úrvalsmatur og notalegheit, jú og auðvitað heiðarleiki, við þykjumst ekki vera neitt annað en það sem við erum.“
Spurður hvað sé vinsælast nefnir Þórólfur fyrst ostborgarann og BBQ borgarann. „Okkar sérstaða er klárlega það að bjóða bæði upp á steikarborgara með hágæða kjöti, kleinuhringi, súrdeigsbrauð, vínarbrauð, kúluís, Don Heffe, franskar, kakómjólk, djúpsteikta vængi, pitsudeig, snúða, sjeik, ostaslaufu, espresso, kleinur og pönnukökur, allt í bland. Að mínu mati er ekki um neina sérstaka endurkomu hverfiskaffihúsa að ræða heldur er veitingarekstur einfaldlega að breytast. Hann er að færast nær fólkinu og um leið lengra inn í hverfin, bæði vegna þess að eftirspurnin er til staðar eftir þessari nálægð en líka vegna mikils leigukostnaðar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er mjög jákvæð þróun að okkar mati og skemmtileg menningarviðbót, að hverfisbúar haldi tryggð við nærliggjandi rekstur. Kostur smærri eininga sem þessarar er auðvitað nálægðin sem og kærleikurinn sem umvefur þessa staði, ásamt hágæða veitingum.“

Categorie: Islanda

Var næstum farinn til United – ,,Ákvað að velja PSG“

DV - 4 ore 15 min fa

Lucas Moura, leikmaður Tottenham, var nálægt því að ganga í raðir Manchester United árið 2013.

Lucas var þá einn efnilegasti leikmaður heims en hann samdi á endanum við Paris Saint-Germain og síðar Tottenham.

,,Ég var mjög nálægt því að semja við Manchester United, þegar Ferguson var ennþá þarna,“ sagði Lucas.

,,Við áttum samtal en ég ákvað að velja PSG. Ég eyddi fimm frábærum árum þar, ég vann mikið og lærði mikið. Ég sé ekki eftir neinu.“

,,Þrátt fyrir erfiða og slæma tíma þá sé ég ekki eftir neinu því ég þroskaðist og lærði mikið.“

Categorie: Islanda

Kærkominn sigur gegn Portúgal

DV - 4 ore 40 min fa

Ísland vann stórgóðan sigur á Portúgal á EM í handbolta í dag, 28:25. Portúgalar hafa spilað frábærlega á mótinu og meðal annars lagt Frakka og Svía að velli. Þetta er því mjög góður sigur og Ísland komið á blað í milliriðli.

Íslendingar voru með yfirburði framan af leik og komust í 7-1. Portúgalar söxuðu á forskotið en staðan í hálfleik var 13:14 fyrir Ísland.

Síðari hálfleikurinn var jafn en Ísland hafði ávallt frumkvæðið.

Janus Daði Smárason var markhæstur með 8 mörk,  Guðjón Valur, Alexander Peterson og Aron Pálmarsson skoruðu 5 mörk hver.

Björgvin Páll varði 12 skot í markinu og átti nokkuð góðan leik.

Framundan eru leikir gegn Norðmönnum og Svíum. Möguleiki á ólympíusæti er enn fyrir hendi.

Ísland leikur við Noreg á þriðjudag kl. 17:15.

Categorie: Islanda

Ráðgátan um snjóinn við Hvíta húsið

DV - 4 ore 45 min fa
Það vakti undrun margra þegar Hvíta húsið hélt því fram á sunnudag að fyrsti snjór ársins hefði fallið fyrir utan húsið. Þá birti Hvíta húsið færslu á Twitter að fyrsti snjór ársins hefði fallið fyrir utan heimili forsetans. Með textanum „First snow of the year!“ fylgdi mynd af hinu fræga húsi þar sem sjá mátti snjókorn fyrir framan myndavélarlinsuna.

Tístið hefur vakið mikil viðbrögð á Twitter, þar sem hitinn í Washington á sunnudag var vel yfir frostmarki. Samkvæmt Huffington Post fór hitinn við Hvíta húsið upp í 20 gráður á sunnudag. Margir þeirra sem hafa tjáð sig á Twitter hafa rætt um meðferð Trump á sannleikanum. Meðal annars skrifar Twitter notandinn JoeMyGod: „Heimskulegasta lygi Trump árið 2020 kom snemma“.

First snow of the year! ❄ pic.twitter.com/kgSLQX6QxK

— The White House (@WhiteHouse) January 13, 2020

Samkvæmt Huffington Post féll fyrsti snjór ársins í Washington síðastliðinn fimmtudag. Vegna þessa eru þeir á þeirri skoðun að tístið hafi verið skrifað á fimmtudag, en deilan á milli Bandaríkjanna og Íran hafi mögulega tafið birtingu þess.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem umfjöllun Trump um veðurfar hefur vakið undrun fólks. Þegar fellibyurinn Dorian nálgaðist Bandaríkin í september, sýndi Trump, í beinni útsendingu, kort yfir það svæði sem gert var ráð fyrir að yrði fyrir barðinu á fellibylnum. Augljóst var að kortinu hafði verið breytt með penna og að ríkinu Alabama hafði verið bætt við. Margir veltu því fyrir sér hvort Alabama hefði verið bætt við vegna þess að forsetinn hafði nokkrum dögum áður sagt að fellibylurinn myndi ganga yfir Alabama.

Categorie: Islanda

Yfirheyrslan – Tyrfingur Tyrfingsson – Óttast mest sjálfsvorkunn

DV - 5 ore 15 min fa

Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld frumsýnir um helgina sitt fimmta verk í Borgarleikhúsinu en það nefnist Helgi Þór rofnar og fjallar um fúskara í útfararþjónustu í Kópavogi sem allt í einu lenda í grískum harmleik. Tyrfingur býr í Amsterdam og hafa verk hans verið þýdd á fjölmörg tungumál og boðin á leikhúshátíðir víða um Evrópu. Þá hlaut verk hans Kartöfluæturnar tilnefningu til Menningarverðlauna DV árið 2017. Tyrfingur er í yfirheyrslu helgarinnar.

Hvar líður þér best?
Á rölti í Amsterdam.

Hvað óttastu mest?
Sjálfsvorkunn.

Hvert er þitt mesta afrek?
Leikritin sem ég hef skrifað – Bláskjár, Auglýsing ársins, Kartöfluæturnar og núna Helgi Þór rofnar.

Furðulegasta starf sem þú hefur tekið að þér?
Að mála gult. Ég var í ofnæmishóp hjá Kópavogsbæ og við fengum það verkefni að mála alla götukanta í bænum gula. Fyrir ofan holræsi, þar sem strætó stoppar og svo framvegis. Mig dreymir stundum ennþá gula götukanta og að ég sé ekki að mála þá nógu vel.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Farið svo öll til helvítis“

Hvernig væri bjórinn Tyrfingur?
Eitraður.

Besta ráð sem þú hefur fengið?
Ef maður er blankur en langar að setja á sig andlitsmaska, að þeyta eggjuhvítu og úða henni yfir smettið á sér og bíða þar til hún harðnar. Bæta svo á þar til að eggjahvítan klárast og þrífa svo úr sér í sturtu. Eins og nýr.

Hvert er leiðinlegasta húsverkið?
Alla vega ekki love making!

Besta bíómynd allra tíma?
The Cook, the Thief, His Wife and Her Lover eftir Peter Greenaway með Michael Gambon og Helen Mirren. Barry Lyndon eftir Kubrick og svo La Grande Bouffe eftir Marco Ferreri.

Hvaða hæfileika myndir þú vilja búa yfir?
Ég væri til í að geta tálgað skálar og smjörhníf og svona alls konar.

Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið?
Að skrifa leikrit um það sem skiptir mig máli án þess að spá í hvað öðrum finnst.

Hvaða frasi eða orð fer mest í taugarnar á þér?
Fallegt. „Bara svo æðislega fallegt …“ Þreytandi.

Hvað geturðu sjaldnast staðist eða ert góður í að réttlæta að veita þér?
Gæjalegt væri að geta sagt amfetamín en svarið er glænýr Þristur eða Grænn hlunkur, eða sem sagt nammi.

Hvað er á döfinni hjá þér?
Frumsýning um helgina á Helgi Þór rofnar í Borgarleikhúsinu með Hirti Jóhanni, Hilmari Guðjónssyni, Þuríði Blævi og Bergi Þór í leikstjórn Stefáns Jónssonar.

Categorie: Islanda

Ronaldo sagður sjá eftir ákvörðuninni

DV - 5 ore 15 min fa

Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus, sér eftir því að hafa yfirgefið spænska stórliðið Real Madrid.

Miðillinn ABC greinir frá þessu en Ronaldo samdi við Juventus í fyrra eftir mörk góð ár hjá Real.

Portúgalinn vildi reyna fyrir sér í nýrri deild og hefur þónokkuð af mörkum fyrir ítalska félagið.

Hann vann þó ekki sín sjöttu Ballon d’Or verðlaun í fyrra enn þau fóru til Lionel Messi.

Ronaldo sér nú eftir því að hafa tekið skrefið til Ítalíu þar sem hann telur möguleikana mun minni að vinna sjöttu verðlaunin þar frekar en á Spáni.

Categorie: Islanda

Dásamlegir drykkir

DV - 6 ore 18 sec fa
Letinginn

Hráefni:

1 banani
7–8 frosin jarðarber
1 bolli vanillumjólk, eða eftir smekk

Aðferð:

Öllu skellt í blandara og blandað þar til drykkurinn er silkimjúkur.

Græninginn

Hráefni:

1½ bolli möndlumjólk
2 bollar frosið spínat
1 meðalstór banani, frosinn
1 bolli ávextir að eigin vali
Próteinduft eða kollagen

Aðferð:

Setjið öll hráefni í blandara og byrjið að blanda á lágum styrk. Hækkið styrkinn jafnt og þétt og blandið í um mínútu á þeim hæsta, eða þar til blandan er silkimjúk.

Ofurhetjan

Hráefni:

2 bollar vatn
Safi úr 1 sítrónu
½ tsk. þurrkað túrmerik
¼ tsk. þurrkað engifer
1/8 tsk. cayenne pipar (má sleppa)
1/8 tsk. kanill
1 tsk. stevia eða 1 msk. hunang eða hlynsíróp

Aðferð:

Setjið öll hráefni í blandara nema steviu/hunang/síróp. Blandið vel og bætið sætuefni út í eftir smekk.

Categorie: Islanda

Þögnin

DV - 6 ore 29 sec fa

Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur og ofanflóðasérfræðingur, vakti athygli á því að stjórnvöld hefðu hunsað áskorun síðan í fyrra þar sem fagfólk, þar á meðal Kristín sjálf, skoraði á stjórnvöld að ljúka sem fyrst uppbyggingu ofanflóðavarna, en samkvæmt Kristínu er aðeins búið að verja um helming þeirra svæða þar sem snjóflóðahætta er yfir ásættanlegum mörkum. Í ljósi hamfara vikunnar er þessi þögn stjórnvalda bagaleg og virðist lítið hlustað á fagfólk í ýmsum geirum – ekki bara í heilbrigðiskerfinu.

Categorie: Islanda

Er Brassi en gæti spilað fyrir Ítalíu: ,,Ekkert ákveðið“

DV - 6 ore 15 min fa

Gabriel Martinelli, nýjasta stjarna Arsenal, er opin fyrir því að spila fyrir ítalska landsliðið.

Martinelli er Brasilíumaður en hann hefur enn ekki spilað A-landsleik og er með ítalskt vegabréf.

Framherjinn segir að það sé draumurinn að spila fyrir Brasilíu en útilokar ekki að leika fyrir Ítalíu.

,,Ég er Brasilíumaður og það er draumurinn auðvitað að spila fyrir Brasilíu,“ sagði Martinelli.

,,Það gæti þó gerst að ég spili fyrir Ítalíu, ekkert hefur verið ákveðið. Ég hef ekki fengið símtal frá Brasilíu.“

Categorie: Islanda