Islanda

Haukur H í DV Tónlist kl. 13

DV - 1 ora 50 min fa

Í næsta þætti af DV Tónlist mun rapparinn Haukur H flytja nýtt lag af væntanlegri plötu. Haukur hefur átt átakanlega ævi sem endurspeglast í textum laga hans.

DV Tónlist verður sýnt klukkan 13:00, föstudaginn langa, 19. apríl.

Hægt verður að horfa á þáttinn hér að neðan þegar útsending hefst.

Categorie: Islanda

Guðjón hefur ekki áhyggjur af Miðbænum

DV - 2 ore 6 min fa

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er sá maður núlifandi sem þekkir best gömlu byggðina í Reykjavík. Hann hefur skrifað um hana bækur og greinar, tekið þátt í gerð sjónvarp- og útvarpsþátta um hana og verið eftirsóttur leiðsögumaður í gönguferðum um Miðbæinn.

Guðjón skrifaði litla grein á Facebook í gær, lagði þar orð í belg um „miðbæjarvandann“ sem mikið er ræddur þessa dagana, stundum með miklum upphrópunum. Guðjón telur að ekkert sé að óttast.

„Ég gerði það að gamni mínu í dag og af gefnu tilefni að ganga Laugaveg (frá Rauðarárstíg) og Bankastræti. Ennfremur allan Skólavörðustíg. Ég taldi rými sem þar eru fyrir verslunar- eða annan rekstur á götuhæðum húsanna. Alls reyndust þau samkvæmt minni talningu vera 251, þar af var 21 rými autt (8,4%) en 230 í rekstri. Verslanir í rekstri eru 150, veitingahús, barir og kaffihús eru 65 en annar rekstur í 15 rýmum (svo sem rakara-og hárgreiðslustofur, Gullnáman, tattoo, spa, eitt safn og fleira).“

Guðjón segir svo að sum af hinum auðu rýmum séu að komast í rekstur aftur.

„Þau eru Skólavörðustígur 4 (þar kemur handverks- og hönnunarbúð), Laugavegur 3 (þar er verið að innrétta nýtt veitingahús), Laugavegur 6 og Skólavörðustígur 1A (í þessum rýmum er norskt fyrirtæki að undirbúa svokallað Ís-gallerí (Magic Art) og húsnæði Helga úrsmiðs á Skólavörðustíg 1A (það er komið í leigu, því á dyrum stendur: opnar bráðlega). Þá má nefna tvö auð rými í hrörlegu húsi á Laugaveg 56. Á bak við það er verið að byggja nýtt hús og stendur stendur til að endurbyggja gamla húsið, þess vegna eru rýmin auð. Eftir standa 11 auð rými sem ég veit ekki hvort hafa verið leigð út. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því?“

 

 

Categorie: Islanda

Listasýning og tónleikar Lýðháskólans á Flateyri í dag

Bæjarins Besta - 2 ore 11 min fa

Líður senn að lokum fyrsta skólaárs Lýðháskólans og því bjóða nemendur til listasýningar og tónleika – eins konar uppskeruhátíð þess sem nemendur hafa unnið að í vetur.

Lýðháskólinn hefur sent eftirfarandi tilkynning frá sér:

Nemendur hafa spreytt sig í hinum ýmsu listgreinum og nú er kominn tími til að deila með ykkur hvað í okkur býr!

SMÁLEIKHÚS – TÓNLEIKAR – LISTAVERK – HEIMILDARMYND

Hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Við hefjum leikinn á smáleikhússýningu á sögunni um Sjóarann og hafmeyjuna (ath. ekki við hæfi ungra barna), fáum að njóta tónleika frá fjölda efnilegra tónlistarmanna af svæðinu og sjá heimildarmyndina „VIГ.

Aðgangur ókeypis.
Léttar veitingar í föstu og fljótandi formi í boði.
Öll velkomin!

Dagskrá frá kl 13:30 til kl 18:00 í Hjálmshúsinu Flateyri

1:30 PM Húsið opnar 2:00 PM Kynning og opnun sýningar 2:10 PM Smáleikhús 2:30 PM Gosi 3:00 PM Árný Margrét 3:30 PM Ómi Cé Andi 4:00 PM Ásta 4:30 PM Between Mountains 5:00 PM Heimildarmyndin „VIГ
Categorie: Islanda

Leoncie segir ritstjóra Hringbrautar djöfladýrkanda: „Má guð almáttugur troða ykkur langt niðri í jörðina“

DV - 2 ore 17 min fa

Leoncie, sem stundum er kölluð Indverska prinsessan eða Ískryddið, vandar ekki Kristjóni Kormáki Guðjónssyni, ritstjóra Hringbrautar.is og fyrrverandi ritstjóra DV, kveðjurnar á Facebook. Hún segir hann, og aðra blaðamenn, djöfladýrkendur og vonar hún að guð almáttugur troði honum í jörðina. Í samtali við DV tekur Kristjón þessu af stóískri ró og segir það raunar hrós þegar Leoncie lætur mann heyra það.

„Kallar þú Alls konar Viðbjóður, Uppspuna og Neikvæðan lýgasögur sem blaðamenn og tónlistarfuskara sem stilla sig upp í Dv og pressunni sem skálda um mig stanslaust í yfir 37 ár Blaðamennska?. DV ritstjórar og svokallaðablaðamennaracistar hafa gert stanslausa árásir á Útlit mitt,Tónlistina mina ár eftir ár og má Gúð álmáttugur troða ykkur langt niðri í jörðina, djöfladyrkjendur,“ skrifar Leoncie við færslu Kristjóns frá 1. apríl um hann væri að færa sig af DV yfir á Hringbraut.

Leoncie er þó hvergi nærri hætt. „Ég bið á hverjum degi að þið hverfið og farið til helvitis. Það tekur svo marga tittlinga og druslur,að ráðast á eina manneskju. Ég er FAGLÆRÐ TÓNLISTARKONA en ykkar sorp blaðamennsku þekkja allir landsmenn, svo hættu að hæla ykkur loddurum. Án þess að tala við mig andliti til andlitis, þið skáldið um mig með ykkar Ofskynjunum,Hatri og Öfundsýki, en Þú er ekkert skárri,“ skrifar Leoncie og bætir við að allir menn verði að deyja.

Ekki hægt að vera fúll

Í samtali við DV býður Kristjón fram hina kinnina. „Leoncie hefur glatt okkur með einum eða öðrum hætti í næstum fjörutíu ár með tónlist. Þegar hún kom fyrst fram á sjónarsviðið líkaði henni ágætlega við landið sjálft og þá sem hér búa. Síðan hefur talsvert mikið vatn runnið til sjávar og nú kvartar hún ítrekað undan kynþáttahatri og öfund sem stafar af hennar mati út af mögnuðum hæfileikum hennar. Síðan skulum við ekki gleyma því að Leoncie hefur náð lengra á erlendri grundu en fjölmargir íslenskir tónlistarmenn. Eitt myndskeið á Facebook er með áhorf uppá nokkrar milljónir. Síðast kom hún fyrir í þætti Jimmy Fallon. Geri aðrir betur,“ segir Kristjón.

Hann segir einfaldlega ekki hægt að vera ósáttur við Leoncie. „En stundum velti ég fyrir mér hvort Leoncie sé einfaldlega gjörningur og hún eigi eftir einn daginn að opinbera allt saman, birtist kannski í sófanum hjá Gísla Martein og útskýrir þennan 40 ára brandara. Auðvitað er ekki hægt að vera ósáttur við þessa mögnuðu listakonu. Þú fagnar því þegar Leoncie hraunar yfir þig, enda er hún Íslandsmeistari þegar kemur að því að láta fólk heyra það, og hún gerir það á einstakan hátt, svipað eins og hún syngur, einstakur tónn og þegar hann beinist að þér er ekki annað hægt að vera þakklátur og svo les maður upphátt fyrir sjálfan sig,“ segir Kristjón.

Categorie: Islanda

Stjarnan fær góð tíðindi: Besti leikmaður liðsins gerir nýan samning

DV - 2 ore 45 min fa

Hilmar Árni Halldórsson, besti leikmaður Stjörnunnar hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samnng við félagið.

Samningur Hilmars átti að renna út eftir tímabilið og var honum frjálst að ræða við önnur félög.

Yfirlýsing Stjörnunnar:
Markahæsti leikmaður Stjörnunnar undanfarin ár og einn besti leikmaður Pepsi deildarinnar, Hilmar Árni Halldórsson hefur skrifað undir nýjan 3 ára samning við Stjörnuna og leikur því með okkur út tímabilið 2021 hið minnsta

Hilmar Árni framlengir við Stjörnuna!
Markahæsti leikmaður Stjörnunnar undanfarin ár og einn besti leikmaður Pepsi deildarinnar, Hilmar Árni Halldórsson hefur skrifað undir nýjan 3 ára samning við Stjörnuna og leikur því með okkur út tímabilið 2021 hið minnsta. #InnMedBoltann pic.twitter.com/96DeNTGUaH

— Stjarnan FC (@FCStjarnan) April 19, 2019

Categorie: Islanda

Lína Birgitta um London ferðina frægu: „Það fær enginn að vita hvað gerðist það kvöld og þá nótt“

DV - 2 ore 46 min fa

Gestur Föstudagsþáttarins Fókus, hlaðvarpsþáttar dægurmáladeildar DV, að þessu sinni er áhrifavaldurinn og athafnakonan Lína Birgitta, konan á bak við vörumerkin Line the Fine og Define the Line. Lína hefur marga fjöruna sopið og var rétt skriðin yfir tvítugt þegar hún stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki. Þá er Lína með tæplega sautján þúsund fylgjendur á Instagram, hannar sinn eigin íþróttafatnað og lætur verkin tala.

Dul um ferðina frægu

Í hlaðvarpsþættinum talar Lína um sorgir og sigra, ástina og vinnuna, en einnig um vinahópinn sem er klárlega einn frægasti vinahópur landsins – áhrifavaldarnir Sólrún Diego, Camilla Rut og Gurrý Jóns. Fjórmenningarnir skelltu sér til London síðustu helgi svo Sólrún kæmist í brúðarkjólamátun, en hún gengur í það heilaga í sumar. Ferðin vakti mikla athygli, enda leyfðu vinkonurnar fylgjendum sínum að fylgjast vel með, nánast frá A til Ö.

Það vakti því athygli þegar stöllurnar tilkynntu um miðbik ferðarinnar að nú yrði slökkt á símum og leið heilt kvöld og heil nótt þar sem fylgjendur fengu engar uppfærslur í „story“ á Instagram. Lína verður dul og pínu vandræðaleg þegar hún er spurð út í símaleysið.

„Það fær enginn að vita hvað gerðist það kvöld og þá nótt, krakkar mínir,“ segir hún og hlær.

„Líkur sækir líkan heim“

Varðandi hvernig þær stöllur kynntust segir hún að þær hafi kynnst í gegnum umboðsskrifstofuna Eylenda á sínum tíma, en skrifstofan sérhæfði sig í áhrifavöldum.

„Þegar allir hugsa rosalega svipað þá laðið þið hvort annað að ykkur. Líkur sækir líkan heim,“ segir Lína. Við erum duglegar að rækta okkar vinasamband.“

Þá segist Lína vera manneskjan í vinahópnum sem peppar aðra í kringum sig.

„Stelpurnar eru farnar að kalla mig „pepp line“,“ segir hún og hlær. „Ég er mjög peppandi. Mér finnst það og flestir segja það við mig. Ég hef óbilandi trú á fólki. Ég hef það. Þú þarft bara að trúa því.“

Hægt er að fylgja Línu á Instagram með því að smella hér.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á Föstudagsþáttinn Fókus með Línu í heild sinni, en hlaðvarpsþáttinn má finna á öllum helstu efnisveitum, svo sem iTunes og Spotify.

Categorie: Islanda

Loksins, loksins: Þessa upphæð fær Pochettino í leikmannakaup í sumar

DV - 2 ore 46 min fa

Mauricio Pochettino, stjóri Totttenham vonast til þess að hafa um 150 milljónir punda í leikmannakaup í sumar.

Pochettino fær 60 milljónir punda frá Daniel Levy og hverja einustu krónu sem kemur inn, með sölu á leikmönnum.

Pochettino er meðvitaður um það að Toby Alderweireld, Christian Eriksen og Kieran Trippier gætu farið í sumar.

Hann vonast til þess að selja nokkra og safna nálægt 90 milljónum punda í kassann. Pochettino hefur ekki eytt krónu í tæp tvö ár, hann er því spenntur að fara að versla sér leikmenn.

Categorie: Islanda

Fanney háir hetjulega baráttu við krabbamein: Reynir stendur fyrir uppboði – ,,Langar að gera allt til þess að hjálpa“

DV - 3 ore 7 min fa

Reynir Bergmann, stuðningsmaður Liverpool og áhrifavaldur stendur fyrir uppboði þessa dagana. Fanney Eiríksdóttir fékk að vita að hún væri með krabbamein degi eftir að hún fékk að vita að hún ætti von á dreng, hún fær allan ágóðann af þessu uppboði.

Þegar Fanney var gengin um 20 vikur fór að blæða lítillega hjá henni. Hún hringdi upp á kvennadeild og fór í skoðun. Ekkert óeðlilegt kom út en sýni var tekið. Hún þurfti að koma aftur til að láta taka klípusýni úr leghálsinum því leitarstöðin var lokuð vegna sumarfría.

Stuðningsmenn Liverpool á Íslandi, hvetja alla sem styðja liðið að taka þátt og reyna að styrkja Fanney og fjölskyldu hennar.

„[Læknarnir sögðu] þú hefur aldrei verið með neinar frumubreytingar. Frumubreytingar eru 10-15 ár að verða að krabbameini í rauninni. Það var rosalega mikið verið að hughreysta mig,“ segir Fanney í Ísland í dag.

Sýnið var tekið á fimmtudegi og fékk Fanney niðurstöðurnar á mánudegi. Hún var með krabbamein. „Ég held við höfum pínu frosið,“ segir Fanney. „Eina sem hann sagði síðan var hvort hann mætti skoða mig aðeins betur. Þá brotnaði ég pínu saman, byrjaði að gráta en svo hristi ég það af mér og lagðist á bekkinn og leyfði honum að skoða mig.“

Reynir sem stendur fyrir þessari söfnun en hann selur Liverpool platta, sem hægt er að hengja upp á vegg.

 ,,Eftir að ég horfði á Island í dag í vikunni varð ég mjög lítill í mér og fór að hugsa hvað lífið er ósanngjant og langaði mér að gera allt til að hjálpa elsku Fanney og börnum hennar,“ skrifar Reynir á Instagram

,,Ég ákvað að nota mátt og stærð samfélagsmiðils míns og bjóða þennan magnaða handskorna stál Liverpool veggplata til sölu hæstbjóðandi og mun allir peningurinn renna til Fanneyjar, stærð plattans er 65*45.“

Sem stendur er hæsta boð 155 þúsund krónur en hægt er að bjóða í verkið með þvi að smella á myndina hér að neðan.

 

View this post on Instagram

 

UPPBOÐ!!! (Selst hæðstbjóðanda þann 1.mai) EKKI COMMENTA NEMA ÞITT BOÐ ÖLL ÖNNUR COMMENT AFÞÖKKUÐ Eftir að ég horfði á Island í dag í vikunni varð ég mjög lítill í mér og fór að hugsa hvað lífið er ósanngjant og langaði mér að gera allt til að hjálpa elsku @fancye87 og börnum hennar. Ég ákvað að nota mátt og stærð samfélagsmiðils míns og bjóða þennan magnaða handskorna stál Liverpool veggplata til sölu hæstbjóðandi og mun allir peningurinn renna til @fancye87 stærð plattans er 65*45 Linkur á frétt: https://www.visir.is/g/2019190419181

A post shared by Reynir Bergmann (@reynirbergman) on Apr 18, 2019 at 3:28pm PDT

Categorie: Islanda

Harðar fjölskyldudeilur milli Brynjars og Gústafs: „Eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn“

DV - 3 ore 7 min fa

Í Völuspá er Ragnarökum lýst svo að bræður munu berjast og að bönum verðast. Líklega hefur höfundur ekki verið að vísa þar til þriðja orkupakkans en nú er sú staða uppi að bræðurnir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Gústaf Níelsson berjast hart vegna þess máls. Á dögunum lýsti Brynjar skoðun sinni á þriðja orkupakkanum og sagðist fylgjandi honum. Nú nokkrum dögum síðar skrifar Gústaf athugasemd við þá færslu og segir bróður sinn vera „sporgöngumann Brusselvaldsins“.

Gústaf Níelsson

Síðastliðinn mánudag lýsti Brynjar því yfir á Facebook að það væri honum óskiljanlegt að vilja hafna þriðja orkupakkanum. „Nokkuð stór hópur „grasrótarinnar“ er heitt í hamsi vegna innleiðingar 3ja orkupakkans. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni og mér gengur ekkert annað til en að gæta hagsmuna okkar, annars vegar þeirra sem felast í EES samstarfinu og hins vegar að tryggja um leið yfirráð okkar yfir orkuauðlindinni, hvernig eignarhaldi okkar er háttað og hvort við tökum þátt í innri markaði með sölu á orku til evrópu í gegnum sæstreng. Því er mér óskiljanlegt hvernig hagsmunum okkar er betur borgið með því að hafna 3ja orkupakkanum,“ skrifaði Brynjar.

Hann bætti svo við að þó hann hlustaði á grasrót flokksins þótt fylgdi hann henni ekki í blindni: „Mér þykir afskaplega vænt um „grasrótina“ og er í miklum samskiptum við hana og hlusta. Ég er hins vegar ekki þannig maður að afstaða mín fari eftir því hvernig vindar blása hverju sinni, hvorki hjá „grasrót“ flokksins eða annars staðar. Þið hafið kosið rangan mann á þing ef þið haldið það, kæru vinir.“

Einn vinur Brynjars á Facebook spyr hann í athugasemd hví honum sé illa við grasrótina, það hafi nú verið hún sem kaus hann á þing. „Að því að við erum öll saman í flokknum, Héðinn. Flokknum sem er okkur svo kær. Mér finnst alveg óþarfi að skipta honum upp grasrót á móti forystu. Ég vil frekar tala um trausta flokksmenn. Ég veit alveg hverjir hafa verið mínir stuðningsmenn og hef verið í góðu sambandi við þá. Þeir eru margir ósammála mér í þessu orkupakkamáli en ég tek alltaf hagsmuni þjóðarinnar fram fyrir allt annað,“ svarar Brynjar.

Það er þessi athugasemd sem verður til þess að Gústaf hjólar í bróður sinn. „Brynjar Níelsson það er alveg augljóst að í þessu máli fara ekki saman hagsmunir flokksforustu og grasrótar flokksins og hvað þá hagsmunir þjóðarinnar. Þið sporgöngumenn Brusselvaldsins eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn í næstu kosningum og höggið verður slíkt að það er bara ekkert víst að þið rísið á fætur aftur,“ segir Gústaf.

 

Categorie: Islanda

10 óhefðbundnar leiðir til þess að brúka gúrku

DV - 3 ore 16 min fa
Hinn líffræðilega ávöxt en menningarlega grænmetið gúrku þekkja og nota líklega allir Íslendingar. Við skerum hana niður og setjum út í salat og mögulega eru einhverjir sem skella tveimur sneiðum yfir augun til að fríska upp á útlitið. En gúrkuna er hægt að nota til ýmislegs annars sem flestum hefði aldrei dottið í hug að framkvæma.

Þessi græni ílangi ávöxtur er stútfullur af vítamínum en í hverjum og einum má finna B-vítamín (B1-2-3-5 og 6), fólin-sýru, C- vítamín, kalk, járn, magnesíum, fosfór, kalín og sink.

Í þessa hluti má meðal annars nota gúrkuna:
  1. Ef þú ert þreytt/ur seinni partinn slepptu því þá að fá þér koffíndrykk og borðaðu eina gúrku. Innihaldsefni gúrkunnar gerir það að verkum að hún gefur þér orku fyrir þessa síðustu klukkutíma dagsins.
  2. Kemur alltaf móða á spegilinn inni á baði eftir að þú ferð í sturtu? Prófaðu að nudda gúrkusneið yfir spegilinn. Hún mun eyða móðunni og gefa ferskan ilm inni á baðherbergi.
  3. Ef þú nuddar gúrkusneið á appelsínuhúð eða hrukkur þá geta innihaldsefni hennar styrkt húð þína.
  4. Vilt þú sleppa við þynnkuna eða höfuðverkinn eftir djamm? Borðaðu nokkrar sneiðar af gúrku áður en þú ferð að sofa og þú munt vakna miklu betri daginn eftir.
  5. Ef þú átt það til að setjast niður fyrir framan sjónvarpið á kvöldin og háma í þig sælgæti eða snakk, prófaðu þá að skipta því út fyrir gúrku. Það mun minnka sykurlöngunina og hungurtilfinninguna sem oft leggst yfir okkur á kvöldin.
  6. Áttaðir þú þig á því þegar þú mættir í vinnuna að þú gleymdir að bursta skóna? Ekkert mál, nuddaðu nýafskorinni gúrkusneið yfir skóna og þeir verða glansandi fínir.
  7. Er ískrið í lömunum á svefnherbergishurðinni að gera þig brjálaða/n en þú átt ekki til WD 40 til þess að bera á. Nuddaðu gúrkubita á lömina og heyrðu muninn.
  8. Er stressið að fara með þig? Skerðu niður heila gúrku í sneiðar og settu ofan í pott ásamt vatni. Kveiktu undir pottinum og bíddu þar til suðan kemur upp. Leyfðu vatninu að sjóða í dágóðan tíma og finndu hvernig gufan hjálpar þér að slaka á.
  9. Finnur þú fyrir andfýlu en átt ekki tyggjó? Taktu gúrkusneið og þrýstu henni upp í góm með tungunni í þrjátíu sekúndur. Það mun eyða þeim bakteríum sem eru til staðar í munninum á þér og valda andfýlunni.
  10. Þú getur meira að segja notað gúrku til þess að þrífa vaska og ryðfrítt stál. Hún hjálpar þér að ná af blettum og þú skaðar ekki húðina með eiturefnum.
Categorie: Islanda

Listasafn Ísafjarðar: Hvaða erindi á íslenskt landslag við umheiminn?

Bæjarins Besta - 3 ore 17 min fa

Laugardaginn 20. apríl heimsækir franski landslagsmálarinn Valerie Boyce Safnahúsið. Hún verður með erindi þar sem útskýrir hvers vegna hún hóf að mála íslenskt landslag fyrir 20 árum og hver boðskapur hennar er.

Einnig fjallar Valerie um mikilvægi landslagsmálverksins á okkar dögum og það sérstaka hlutverk sem íslenskt landslag hefur að hennar mati. Náttúra og tækni eru oft túlkuð í nútíma myndlist, innsetningum, vídeóverkum og ljósmyndum. Valerie ætlar að sýna að málverkið er einnig miðill sem nota má til túlkunar á landslagi til mótvægis við spennu og kvíða sem einkennir hinn net- og tölvuvædda heim. Á vissan hátt lítur á hún á sig sem fornan kínsverkan listmálara. Fyrir Kínverjum var landslagsmálun myndhverfing fyrir gildi, trú og tilfinningar hvers einstaklings.

Valerie mun útskýra þessa kenningu sína með dæmum úr listasögunni, hennar eigin verkum og tilvitnunum í verk rithöfunda sem skrifað hafa myndræna texta eins og Marcel Proust, Rainer Maria Rilke, Joseph Conrad og Kasuo Ishiguro.

Valerie Boyce nam myndlist við Beaux Arts School í Paris,  School of Visual Arts í New York. Hún hefur sýnt verk sín á Íslandi, í Hafnarborg, sýningarsal SÍM, Gallerí Fold, Studio Stafni og Kirsuberjatrénu.

Erindið verður flutt á ensku og hefst kl. 14.00. Allir velkomnir.

Categorie: Islanda

Dregur sannleiksgildi Leaving Neverland í efa: „Fólk skáldaði bara upp einhverja bölvaða sögu því það vildi eignast peninga“

DV - 3 ore 46 min fa

Aðstoðarskiptastjóri dánarbús Michael Jackson, John Branca, tjáði sig í fyrsta skipti um heimildarmyndina Leaving Neverland í gær á viðburði sem bar yfirskriftina „Réttarhöld í fjölmiðlum“ sem fór fram í Harvard-háskólanum á dögunum.

Branca neitaði því að sannleikurinn kæmi fram myndinni sem vakið hefur mikla athygli að undanförnu. Í myndinni segja þeir James Safechuck og Wade Robson frá meintu kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir af hálfu Jackson.

„Þetta fólk skáldaði bara upp einhverja bölvaða sögu því það vildi eignast pening en við ætlum ekki að leyfa því að viðgangast,“ segir hann.

Dánarbú Michaels kærði HBO, dreifingaraðila myndarinnar, en lögsóknin nemur 100 milljónum Bandaríkjadollara. HBO sagðist treysta Dan Reed, leikstjóra og framleiðanda myndarinnar.

Branca sagði líka: „Lögin varðandi óhróður eru eins og þau eru, við getum ekkert sagt né gert. Ímynd hans getur eyðilagst og börnin hans orðið fyrir skaða en það er ekkert hægt að gera í því. Ég sting upp á því að lögunum verði breytt til að vernda þá framliðnu, allavegana tímabundið. Þar sem þetta snýst um sannleikann, sanngirni og jafnvægi.“

Branca, sem þekkti Michael persónulega, segist skilja að fólk vilji meina að hann sé ekki hlutlaus vegna þess að hann eigi hagsmunum að gæta, en Branca græðir á vörumerki Jackson. „Ég þekkti manninn og mér líkar ekki það sem hefur gerst, því þú færð ekki að heyra hina hlið málsins,“ og bætir við: „Vonandi kemur raunverulegur sannleikurinn í ljós.“

Hann segir svo að lokum að hann vonist til að tónlist Michael Jackson fái áfram að lifa. „Hann er of stór til að falla.“

Categorie: Islanda

Smári: Steiktu Kóreumenn upp úr lýsi? – „Gæti nú allt eins talist stríðsglæpur“

DV - 4 ore 2 min fa

„Framlag Íslands til mannúðarmála í Kóreustríðinu 1951 var matarolía að verðmæti $45400 USD.“ Þetta segir ‎Smári McCarthy‎, þingmaður Pírata, innan Facebook-hópsins Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar. Hópurinn er nokkuð vinsæll meðal íslenskra stjórnmálamanna og hafa nokkrar umræður sprottið úr þessu innleggi Smára.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, bendir á að þetta hafi verið lýsi en ekki matarolía og vísar í frétt frá þessum tíma. „Í byrjun þessa mánaðar var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar að leggja fram 125 tonn af þorskalýsi til nauðstaddra barna í Kóreu og skoðast lýsið sem beint framlag til Sameinuðu þjóðanna frá Ríkisstjórn Íslands,“ segir í þeirri frétt.

Smári svarar þessu og veltir fyrir sér hvort Kóreumenn hafi í raun eldað upp úr lýsinu. „Sumsé, einhver hélt að það væri góð hugmynd að steikja upp úr lýsi? Eða hefur 식용유 breiðari merkingu? Úff. Þetta jaðrar við að vera áhugavert,“ spyr Smári.

Andrés svarar til baka: „Eins og fólk hafi ekki þurft að þola nóg, þá hafi það fengið stirfry með lýsisbragði?“ Alexandra Bríem, varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, bætir við þetta: „Það gæti nú allt eins talist stríðsglæpur ef við gerðum þeim það.“ Unnar Þór Sæmundsson, gjaldkeri Pírata, segir engan vafa á því: „Alexandra ég er nokkuð viss um að senda 125 tonn af lýsi sem „gjöf“ er stríðsglæpur.“

 

Categorie: Islanda

Samfylkingin á móti einkarekstri til styttingar biðlista : „Eins og hver önnur vitleysa“

DV - 4 ore 8 min fa

Þau Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vilja bæði skoða aðra kosti áður en að ríkið semji við Klínikina um liðskiptiaðgerðir til að stytta þá gríðarlöngu biðlista sem myndast hafa um slíkar aðgerðir.

Þetta kemur fram í svörum þeirra við spurningum Björns Birgissonar, sjálfstætt starfandi blaðamanns, á Facebook.

Sem stendur eru þeir sem þurfa á slíkum aðgerðum að halda sendir til Svíþjóðar, fyrir um þrefalt hærri kostnað en kostar að gera slíka aðgerð hér á landi, en þar sem Klínikin, sem framkvæmt getur slíkar aðgerðir, flokkast undir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, virðist það ekki koma til greina samkvæmt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Hefur þetta vakið gremju hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, en Jón Gunnarsson segir Svandísi fullkunnugt um þetta ósætti þeirra.

Setur spurningamerki við einkarekstur

Svo virðist sem Svandís eigi hauk í horni hjá Samfylkingunni, ef marka má svör Loga og Oddnýjar.

Logi sagði aðspurður um hvort hann styddi þá ákvörðun að samið yrði við Klínikina, að skynsamlegra væri að ræða við aðrar stofnanir fyrst:

„Það er auðvitað lykilatriði að sjúklingar eiga ekki að þurfa að þjást í bið eftir mikilvægum aðgerðum og alltaf spurning um hvaða aðgerðir skulu settar í forgang yfir aðrar. Við heyrum mikið talað um liðskiptaaðgerðir – og kröfur um að samið verði við Klínikina um að framkvæma þær.En væri ekki skynsamlegra að ræða fyrst við eigin stofnanir og kanna getu þeirra til að taka að sér fleiri aðgerðir? Það eru þær stofnanir sem við höfum fjárfest í. Auðvitað vilja allir stytta biðlista en það þýðir ekki að það sé skynsamlegt að færa meira af grunnstoðum kerfisins í einkarekstur. Mikill meirihluta Íslendinga vill að heilbrigðisþjónusta sé fyrst og fremst veitt af hinu opinbera – það viljum við líka. Það er í höndum ríkisstjórnarinnar að ákvarða fjármagn og semja við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Akranesi um fleiri aðgerðir og stytta þannig biðlista. Þegar hefur verið samið um tiltekinn fjölda aðgerða og Landspítalinn og hin sjúkrahúsin hafa sinnt verkefninu eins og um var samið. Ég held því að það þurfi því fyrst og fremst fjármagn í opinbera kerfið, að semja um aukagreiðslur fyrir þessar aðgerðir og fullnýta getu spítalans og sjúkrahúsanna.“

Þegar gengið var á Loga um hvort þetta þýddi að hann vildi ekki samning við Klínikina, sagði Logi:

„Ég vil að áherslan sé á opinbert heilbrigðiskerfi fyrir alla og tel að það vanti fé þar inn. Ég vil frekar nota fé til að byggja fyrst upp fyrsta flokks opinbert heilbrigðiskerfi og gera það skilvirkt. Það er til staðar. Ég set því spurningarmerki við að nota fé ríkissjóðs í slíkan einkarekstur.“

Aðeins ef Klínikin væri eina von sjúklinga

Oddný fékk sömu spurningu frá Birni í einkaskilaboðum á Facebook.

„Það þarf að stytta biðina eftir aðgerðum og eftir því að fólk fái bót meina sinna. Ég vil að burðir opinbera heilbrigðiskerfisins verði nýttir eins og ég hef tekið fram á Facebook síðu minni og víðar – og ég vil hvorki tvöfalt kerfi, né að arður sé greiddur út úr heilbrigðisgeiranum.“

Þess skal getið að Klínikin hefur aldrei greitt út arð til eigenda sinna, samkvæmt heimasíðu.

Þegar gengið var á Oddnýju, hvort hún væri á móti samningum við Klínikina, var hún afdráttarlaus í svari sínu:

„Já, vegna þess að ég vil gera samninga við opinberar heilbrigðisstofnanir og styrkja þær með þeim samlegðaráhrifum sem fylgja. En auðvitað ef Klínikin væri eina von sjúklinga þá væri ég ekki á móti henni, en þannig standa málin ekki hér á landi. Sjálfstæðismenn vilja svelta opinbera kerfið og hafa gert það. Það hallar sannarlega á hið opinbera ef litið er til aukinna fjárveitinga síðustu 5-6 ára.“

Þess skal getið að Oddný var ósátt við að Björn hafi birt svör hennar á Facebook, þar sem spjall þeirra fór fram í einkaskilaboðum.

Þar segir Oddný að Björn hafi komist að rangri niðurstöðu í túlkun sinni á svörum hennar, að Samfylkingin vildi frekar greiða þrefaldan kostnað við aðgerðirnar í Svíþjóð, í stað þess að semja við Klínikina sem millileik í stöðunni, meðan unnið væri í biðlistunum.

Oddný brást við þessu hjá Birni:

„Í fyrsta lagi skrifaðir þú mér í einkaskilaboðum og sagir mér ekki að þú ætlaðir að birta svarið. Í öðru lagi er niðurstaða þín alröng. Ég vil að unnið sé á biðlistum og fjármunir settir til þess í heilbrigðiskerfi okkar. Þá þyrfti ekki að senda fólk til Svíþjóðar í aðgerð./
Túlkun þín á mínum svörum er röng. Og til þess að þurfa ekki að senda fólk til Svíþjóðar eigum við að setja aukna fjármuni til þeirra heilbrigðisstofnana sem hafa sitt þessum verkefnum vel og hafa burði til að gera enn betur ef fjármagn fæst,“

skrifaði Oddný og sagði afstöðu sína ekkert leyndamál.

Eins og hver önnur vitleysa

Síðar skrifaði Oddný færslu á Facebook um málið:

„Nú halda menn því fram að eina leiðin til að lina þjáningar þeirra sem þurfa á liðskiptaaðgerðum að halda, sé að ríkið setji fjármuni til einkasjúkrahúss. Þá reddist allt. Þetta er eins og hver önnur vitleysa. Það þarf sannarlega fjármagn til að stytta biðlista og ríkisstjórnin þarf að leysa málið. Við eigum að sjálfsögðu að fullnýta getu þeirra stofnana sem við höfum fjárfest í og byggt upp saman.“

Skortir fjármagn

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur einnig skrifað um málið líkt og Oddný bendir á. Hann segir að þegar ráðist var í átak um aukna fjármögnun tiltekinna aðgerða, þar á meðal liðskiptiaðgerða, hafi sú áætlun verið van-áætluð, þar sem þörfin hafi verið meiri en fjármagnið dugði til.

Þá segir hann einnig að þær fjárhæðir sem um er rætt varðandi kostnaðinn á aðgerðunum séu ekki réttar:

„Að lokum, vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um liðskiptaaðgerðir undanfarið þá er rétt að hnykkja á nokkrum atriðum. Það er í höndum ríkisvaldsins að ákvarða fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar og í sameiningu er verkefnum forgangsraðað. Mikilvægt er, sérstaklega í ljósi smæðar íslensks heilbrigðiskerfis, að þegar ákvarðanir eru teknar um einstaka verkefni sé horft til áhrifa þeirra á heilbrigðiskerfið allt, aðra sjúklingahópa og skattgreiðendur.
Fyrir rúmum þremur árum tóku stjórnvöld þá ákvörðun að auka sérstaklega við fjármögnun tiltekinna aðgerða, þ.m.t. liðskiptaaðgerða, og fól Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi verkefnið. Ríkisvaldið ákvað hversu margar viðbótaraðgerðir skyldu gerðar og hafa stofnanirnar sem verkefnið tóku að sér sinnt þeim af krafti. Tilteknu fjármagni var varið til verkefnisins, það hefur verið nýtt og Landspítali eins og hin sjúkrahúsin hafa sinnt verkefninu eins og um var samið. Það er því ekki svo að hjá garði liggi ónýtt fjármagn eða að sjúkrahúsunum hafi ekki tekist að sinna verkefninu eins og þeim var ætlað. Þess má geta að samningurinn gerir ráð fyrir umtalsvert lægri meðalkostnaði per aðgerð en fram hefur komið að einstaklingum standi til boða að greiða úr eigin vasa hjá einkaaðila hérlendis.
Fyrir liggur, að mati Embættis landlæknis, að þörfin sé meiri en átakið gerði ráð fyrir og fari vaxandi. Landspítali vinnur stöðugt að umbótum á þessu ferli og þar þarf til dæmis að skoða frekar einföldun biðlista og undirbúning sjúklinga fyrir aðgerðir, m.a. er unnið að tilraunaverkefni á þessu sviði með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ákveði stjórnvöld að ráðast í frekara átak gegn biðlistum þá lýsir Landspítali sig tilbúinn til að taka þátt í því verkefni til að efla þessa mikilvægu starfsemi.

Ísland er lítið land og það er álit heilbrigðisráðherra, Embættis landlæknis sem og Landspítala að mikilvægt sé að sérhæfð þjónusta, svo sem bæklunarskurðlækningar, sé ekki dreifð um of á litlar einingar á sama svæði. Þetta er afar mikilvægt til að viðhalda þjálfun starfsfólks og tryggja getu spítalans til að gegna mikilvægu hlutverki sínu í öryggisneti landsins. sem og kennsluhlutverki.
Margítrekað hefur komið fram að sá vandi sem að spítalanum snýr vegna þeirra einstaklinga sem ekki geta útskrifast, þar sem þeir bíða annarra úrræða, dregur úr getu hans til sinna sínu lögskipaða hlutverki – sem er að veita háþróaða meðferð, hjúkrun og lækningar til sjúklinga sem sannarlega þurfa flókna meðferð. Lausnin við þessu er ekki að draga úr getu spítalans til að sinna sínu kjarnahlutverki og færa út af stofnuninni flókin verkefni. Lausnin er sú að byggja upp þau stuðnings- og búsetuúrræði sem fólk bíður eftir. Stjórnvöld hafa enda brugðist við með skynsamlegum hætti og stendur nú yfir öflug uppbygging hjúkrunarheimila auk þess sem nýtt sjúkrahótel verður opnað á næstu vikum sem enn eykur á slagkraft spítalans.
Það er forgangsmál okkar allra að fulllnýta getu opinberra stofnana og þeirra fjárfestinga sem ríkið hefur þegar ráðist þar í til að mæta þörfum þeirra sjúklinga sem sannarlega þjást í bið sinni eftir viðtali og aðgerð í öruggu umhverfi.“

 

Categorie: Islanda

Hlýnun jarðar mótmælt: Skilti með Rúrik Gíslasyni vakti gríðarlega athygli

DV - 4 ore 16 min fa

Rúrik Gíslason, er þekktasti knattspyrnumaður Íslands ef maður tekur mið af fylgjendum á Instagram. Rúrik varð heimsfrægur á HM og er með yfir milljón fylgjendur á samfélagsmiðlinum.

Rúrik er iðulega talinn afar myndarlegur maður, eða „heitur“ eins og kom fram á skilti.

Hlýnun jarðar var mótmælt á dögunum á Selfoss og þar var skilti með mynd af Rúrik.

,,Jörðin er að verða heitari en Rúrik Gíslason,“ stóð á skiltinu sem var með mynd af Rúrik á.

Það var aðdáendasíða Rúriks í Argentínu sem vakti athygli á þessu en hún heitir Rúrik Perfect Argentína.

Mynd af skiltinu má sjá hér að neðan.

Categorie: Islanda

Miðflokkstaktar Simma

DV - 4 ore 16 min fa

Sigmar Vilhjálmsson, eða Simmi Vill, fyrrverandi eigandi Hamborgarafabrikkunnar, fer mikinn þessa dagana í þjóðfélagsumræðunni. Til að mynda er hann einn helsti talsmaður hópsins Orkan okkar sem beint er gegn orkupakka 3. Sigmar hefur oft verið bendlaður við stjórnmálin en nú virðist meiri alvara hjá honum. Orkan okkar gæti verið upptaktur að framboði líkt og Indefence var hjá nafna hans.

Árið 2013 var Simmi vonarstjarna hjá Framsóknarflokknum en lét þá ekki til skarar skríða. Nú er hann skráður í Sjálfstæðisflokkinn en talar á skjön við forystu flokksins. Simmi tekur sér hins vegar afgerandi aðstöðu með Miðflokksmönnum og gæti það verið næsti áfangastaður hans. Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi, tókst á við Simma nýverið og bendlaði hann við framboð. Ekki fylgdi sögunni hvaða flokk um ræddi en ætla má að það sé Miðflokkurinn.

Categorie: Islanda

Lögregla bjargaði fjórum út úr húsi á Ísafirði

DV - 4 ore 32 min fa

Lögreglumenn á Ísafirði náðu að bjarga fjórum út úr húsi í nótt eftir að það byrjaði að loga í sólpalli. Auk þess hafði eldur náð að festast í klæðningu hússins, sem er viðarhús, þegar lögreglumenn sáu reyk stíga upp úr húsinu.

RÚV greinir frá þessu. Lögreglumenn eru sagðir hafa brugðist hratt við, vakið fólkið og haldið eldinum í skefjum þar til slökkvilið kom á vettvang. Á Ísafirði er nú talsverður fjöldi gesta vegna Aldrei fór suður. Nóttin er sögð hafa verið róleg fyrir utan þetta atvik.

Categorie: Islanda

Knattspyrnan hefst í dag – bikarleikur Vestra

Bæjarins Besta - 4 ore 36 min fa
Knattspyrnuvertíð ársins hefst formlega í dag hér fyrir vestan með leik við Kára frá Akranesi. Vestri tekur á móti Kára á laugardaginn kl 14:00 í 2.umferð Mjólkurbikarsins. Leikið verður á Ísafirði, nánar tiltekið á gervigrasvellinum á Torfnesi. Þetta er fyrsti heimaleikur liðisins árið 2019 og um stórleik að ræða þar sem að sigurliðið kemst áfram í næstu umferð. Við viljum hvetja fólk til þess að fjölmenna á völlinn. Miðaverð er 1500kr en frítt er fyrir 16 ára og yngri.
Categorie: Islanda

Solskjær hjólar í leikmennina sína: ,,Ekki neinn felustaður hjá United“

DV - 4 ore 46 min fa

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United krefst þess að nokkrir leikmenn félagsins horfi í eign barm, og bæti leik sinn.

Solskjær sagi meðal annars að hjá Manchester United. ,,Hér er ekki hægt að vera í feluleik.“

,,Ég hef lært mikið um leikmennina á síðustu mánuðum, þeir hafa hrifið mig með viðhorfi sínu,“ sagði Solskjær.

,,Það eru hins vegar nokkrir sem þurfa að horfa í eigin barm, flestir vita að þeir þurfa að bæta leik sinn.“

,,Ég hef rætt við einstaklinga og þeir vita að þeir þurfa að bæta sig, Anthony Martial er einn af þeim sem ég hef rætt við. Ég hef rætt við marga um hvað ég ætlast til af þeim, Anthony hefur magnaða hæfileika, var að skrifa undir nýjan samning. Hann veit að ég hef trú á sér.“

Categorie: Islanda

Stuðningsmenn Liverpool elska það hvernig félagið gerði þetta: Ná fram hefndum gegn Barcelona

DV - 5 ore 16 min fa

Stuðningsmenn Liverpool eru afar ángæðir með það hvernig félagið tæklaði hátt miðaverð hjá Barcelona.

Liðin mætast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, eftir tæpar tvær vikur á Nývangi.

Liverpool reyndi að fá Börsunga til að lækka miðaverðið fyrir leikinn á Nývangi, félaginu fannst það of hátt.

Þetta hafði Liverpool náð að gera í átta liða úrslitum gegn Porto en Börsungar tóku það ekki í mál. Barcelona mun því halda áfram að rukka 119 evrur á miðann, sama og félagið gerði gegn Manchester United.

Til að koma til móts við stuðningsmenn sína mun Liverpool einnig rukka 119 evrur, á stuðningsmenn Barcelona þegar þeir heimsækja Anfield. 31 evra af hverjum miða fer til stuðningsmanna Liverpool, sem fara á útileikinn.

Þannig nær félagið að lækka miðverðið á Nývangi með því að rukka stuðningsmenn meira en félagið hafði hugsað sér.

Categorie: Islanda