Islanda

Stuðningsmenn Liverpool klöppuðu fyrir Bayern: ,,Græðgin á sér engin takmörk“

DV - Mar, 19/02/2019 - 23:03

Stuðningsmenn Bayern Munchen í Þýskalandi létu í sér heyra í kvöld er liðið mætti Liverpool í Meistaradeildinni.

Um var að ræða fyrri leik liðanna af tveimur í 16-liða úrslitum en niðurstaðan var markalaust jafntefli í kvöld.

Stuðningsmenn Bayern mættu með borða til leiks í kvöld þar sem kvartað var yfir miðaverðinu á leikinn.

Stuðningsmenn Bayern þurftu að borga minnst 55 evrur til að komast á leikinn í kvöld sem gerir um 7,500 íslenskar krónur.

Þetta tóku stuðningsmenn Liverpool vel í en þeir hafa áður kvartað yfir dýru miðaverði á útileiki liðsins.

Eftir að borðinn fór á loft þá mátti heyra mikið klapp á Anfield en græðgi hjá knattspyrnufélögum á sér oft engin takmörk.

Bayern fans applauded by the Kop for backing Liverpool fans’ twenty is plenty campaign fir the price of away tickets. #lfcbayern pic.twitter.com/R7CvocOQPF

— David Anderson (@MirrorAnderson) 19 February 2019

Categorie: Islanda

Allir héldu að hún hefði flutt að heiman fyrir 19 árum – Síðan fannst hún á óvæntum stað

DV - Mar, 19/02/2019 - 23:00
Allir töldu að Jasmina Dominic hefði flutt að heiman fyrir 19 árum en hún hafði búið hjá foreldrum sínum í Króatíu. Nýlega fannst hún síðan á óvæntum stað og er óhætt að segja að það hafi komið flestum í opna skjöldu.

Jasmina var 23 ára þegar síðast sást til hennar í kringum aldamótin. En það var ekki fyrr en 2005 sem tilkynnt var um hvarf hennar til lögreglunnar.

Nýlega fannst hún síðan, það er að segja lík hennar, í frysti á heimili foreldra hennar í bænum Palovec. Króatískir fjölmiðlar skýra frá þessu. Það liggur því ljóst fyrir að hún yfirgaf æskuheimili sitt aldrei.

Systir hennar, Smiljana Srnec, býr nú í húsinu og hefur hún verið handtekin grunuð um að hafa orðið systur sinni að bana. Smiljana er þremur árum eldri en Jasmina.

Líkið fannst þegar fjölskyldan var að endurskipuleggja og endurnýja húsið.

Samkvæmt frétt Index hefur Smiljana viðurkennt að hafa orðið systur sinni að bana. Ástæða þess að líkið fannst ekki fyrr er að frystinum hafði verið komið fyrir undir stiga og því var ekki hægt að opna lokið á honum alveg til fulls og því var einfaldlega of erfitt að kíkja ofan í hann.

Lögreglan lýsti eftir Jasmina.

Telegram segir að Smiljana sé grunuð um að hafa villt um fyrir lögreglunni og systur sinni varðandi hvarf Jasmine fyrir 19 árum. Hún sagði að Jasmine hafi látið sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja og hafi meira að segja verið í sambandi við sig síðar.

Lögreglan hafði áður leitað að Jasmine á og við heimilið en hafði greinilega ekki kíkt ofan í frystikistuna.

Categorie: Islanda

Einkunnir úr leik Liverpool og Bayern Munchen – Firmino bestur

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:57

Það fór fram stórleikur í Meistaradeild Evrópu í kvöld er Liverpool og Bayern Munchen áttust við.

Um var að ræða fyrri leik liðanna af tveimur en leikið var á Anfield, heimavelli Liverpool.

Því miður fyrir áhorfendur létu mörkin ekki sjá sig og lauk leiknum með markalausu jafntefli.

Hér má sjá einkunnirnar úr leiknum.

Liverpool:
Alisson 6
Alexander-Arnold 6
Matip 5
Fabinho 6
Robertson 6
Wijnaldum 6
Keita 7
Henderson 7
Salah 6
Firmino 8
Mane 6

Bayern Munchen:
Neuer 7
Kimmich 6
Sule 6
Hummels 6
Alaba 6
Thiago 6
Martinez 7
Rodriguez 6
Gnabry 7
Lewandowski 5
Coman 7

Categorie: Islanda

Markalaust kvöld í Meistaradeildinni

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:53

Það var alls engin markaveisla í Meistaradeild Evrópu í kvöld en tvær viðureignir fóru fram.

Stærri leikur kvöldsins fór fram á Anfield þar sem Liverpool fékk Bayern Munchen í heimsókn.

Það var boðið upp á ansi fjörugan leik í Liverpool en um var að ræða fyrri leikinn af tveimur.

Því miður fyrir áhorfendur voru engin mörk á boðstólnum og lauk leiknum með markalausu jafntefli.

Það sama gerðist í Frakklandi er stórlið Barcelona heimsótti Lyon en tókst ekki að skora.

Barcelona átti 24 marktilraunir í leik kvöldsins en mistókst að koma knettinum í netið.

Liverpool 0-0 Bayern Munchen

Lyon 0-0 Barcelona

Categorie: Islanda

Verða nýir símar og tölvur með innbyggða klámvörn?

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:30

Svo gæti farið að allar nýjar tölvur og nýir símar verði með innbyggða klámvörn í framtíðinni. Þetta verður að minnsta kosti raunin í Kansas nái frumvarp Randy Garber, þingmanns Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, fram að ganga.

Hugmyndin er sú að ekki verði hægt að fara inn á vefsíður sem innihalda klámefni. Þau fyrirtæki sem selja síma og tölvur í Kansas þurfi að ábyrgjast það að koma síunni fyrir. Og þeir sem kjósi að nota ekki umrædda síu þurfi að greiða fyrir það 20 Bandaríkjadali. Segir Randy að þeir sem eru undir 18 ára hafi ekkert val; þeir verði að kaupa tækin með umræddri síu, eða hugbúnaði, sem lokar á klámefnið.

„Af hverju ætti fólk ekki að vilja þetta?“ segir Randy í samtali við Topeka Capital-Journal.

Þessi hugmynd hefur ekki fallið vel í kramið hjá öllum og hafa gagnrýnendur bent á að það kunni ekki góðri lukku að stýra að yfirvöld séu að skipta sér af því hvaða efni fólk skoðar á netinu.

Randy vill einnig að sérstakt gjald verði rukkað fyrir þá einstaklinga sem vilja heimsækja til dæmis nektardansstaði. Nái frumvarp Randys fram að ganga verður það 3 dollarar. Hann segir að allur ágóði af þessari lagabreytingu muni renna í baráttuna gegn mansali.

Categorie: Islanda

Sjáðu hvað Bjarni Ben hefur áður sagt um þriggja þrepa skattkerfi

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:21

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti um viðleitni ríkisstjórnarinnar til breytingar á skattkerfinu í dag vegna yfirstandandi kjaraviðræðna en skattleysismörk verða 160.000 kr. á mánuði og tekjuskattur á lágtekjufólk verður lækkaður um 2%  og bætt verður við nýju neðsta skattþrepi og fjárhæðum til lækkunar skatta beint til lægri millitekju- og lágtekjuhópa, samkvæmt tilkynningu.

Um er að ræða um 80 þúsund krónur á ári í aukningu á ráðstöfunartekjum fólks með 325 þúsund króna mánaðarlaun, eða um 7000 krónur á mánuði, sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að dugi rétt fyrir tveimur stórum pizzum, einum skammti af brauðstöngum og annan af kjúklingavængjum, á nettilboði 2 hjá Dominos.

Skyndilega skipt um skoðun

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, bendir á að Bjarni Benediktsson hafi talað gegn þriggja þrepa skattkerfi allt frá árinu 2013:

„Útspil fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í kjaraviðræðum kemur verulega á óvart. Til stendur að flækja skattkerfið og taka aftur upp þrjú skattþrep. Það er stutt síðan hann lagði áherslu á mikilvægi þess að fækka skattþrepum og nýta kosti persónuafsláttar. Um það vorum við sammála og fækkuðum skattþrepum og hækkuðum persónuafslátt. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013 sagði form. Sjálfstæðisflokksins:

„Við ætlum að lækka tekjuskattinn að nýju og einfalda skattkerfið, hætta með þriggja þrepa skattkerfi.“

Sigmundur segir að Bjarni  hafi slegið á gagnrýni  á Facebook og heimasíðu Sjálfstæðisflokksins í júní 2016 er hann sagði:

„Þeir sem gagnrýnt hafa þessa stefnu, en flestir þeirra tala fyrir því að við höfum áfram þrjú skattþrep en ekki tvö (t.d. Katrín Jakobsdóttir síðast í gær), nefna gjarnan tekjujöfnunarhlutverk kerfisins. Gallinn á þessum málflutningi er sá að hann viðurkennir ekki að persónuafslátturinn tryggir þetta hlutverk nú þegar mjög ríkulega.”

Öllu má nú ofgera

Á Alþingi í maí 2016 sagði Bjarni:

„Mín skoðun er bara sú að það sé ofgert að setja síðan þrjú skattþrep ofan á prógressíft skattkerfi eða ofan á persónuafsláttinn. Við ættum frekar að horfa á persónuafsláttinn sem tæki til að ná frekari árangri en að leggja alla áherslu á þriðja skattþrepið, enda held ég að það hafi alls ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt, hvorki í tekjuöflunarhlutanum, vegna þess að það skilar tiltölulega litlum viðbótartekjum, né heldur í hlutverki sem jöfnunartæki.”

Svo virðist sem að Bjarni hafi því skipt um skoðun hvað varðar þriggja þrepa skattkerfi.

Sigmundur segir ekki gott að sjá hvernig fjölgun skattþrepa geti nú verið til þess fallin að leysa úr stöðunni á vinnumarkaði eða bæta kerfið.

„Til þess eru betri leiðir eins og ég fer yfir á morgun,“ segir Sigmundur.

 

Categorie: Islanda

Drogba velur fimm manna draumalið – Enginn hefur valið þennan áður

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:02

Didier Drogba, fyrrum leikmaður Chelsea, var í dag beðinn um að velja besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Drogba var beðinn um að velja sitt fimm manna draumalið og er hópurinn ansi sterkur.

Drogba lék með fjölmörgum góðum hjá Chelsea á sínum tíma og eru þrír í hans liði fyrrum samherjar.

Thierry Henry, fyrrum leikmaður Arsenal, fær einnig pláss hjá Drogba en hann er talinn einn besti sóknarmaður í sögu úrvalsdeildarinnar.

,,Thierry Henry, Frank Lampard, Petr Cech og Peter Crouch, hann þarf ekki að hoppa heldur er bara þarna. Svo líka Eden Hazard,“ sagði Drogba.

Það er mjög athyglisvert að Crouch fái kallið frá Drogba en hann hefur alls ekki átt eins farsælan feril og hinir fjórir.

Crouch er þó mjög hávaxinn og gæti komið sér vel að hafa einn turn í fremstu víglínu!

Fjölmargir knattspyrnumenn hafa valið sitt fimm manna draumalið en Crouch hefur aldrei fengið kallið áður.

Categorie: Islanda

Þau gifta sig á árinu

DV - Mar, 19/02/2019 - 22:00
Ástin blómstrar á árinu og fjölmörg pör hafa ákveðið að gifta sig í sumar, fræga fólkið þar á meðal. Tónlistarfólk, íþróttastjörnur, fjölmiðlafólk og samfélagsmiðlastjörnur. Hér eru fræg pör sem hyggjast hætta að lifa í synd árið 2019. Tobba og Kalli
Trúlofuðust um jólin. Ógleymanleg stund í Háskólabíói

Hin eina sanna Tobba Marinós, fjölmiðlakona og metsöluhöfundur, brast í grát þegar hennar heittelskaði Karl Sigurðsson bað hennar í desember. Karl gerði það í Háskólabíói á hinum víðfrægu jólatónleikum hljómsveitar hans, Baggalúts, þar sem fjöldi gesta fylgdist með. Undir lok tónleikanna sagði hann:

„Við erum allir ráðsettir menn og giftir, nema einn, svo ég var að spá: Tobba, viltu giftast mér?“

Tobba sagði já og kyssti verðandi eiginmann sinn. Fagnaði allur salurinn vel og innilega.

Dásamleg stund. Fraus í bónorðinu

Knattspyrnustjarnan Gylfi Þór Sigurðsson, sem leikur með Everton í Englandi, sagði í helgarviðtali í DV síðastliðinn nóvember að hann hefði lengi ætlað sér að biðja Alexöndru Helgu Ívarsdóttur. Tók hann loks af skarið við matarborðið þar sem þau voru í fríi á Bahamaeyjum.

„Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævinni. Ég var búinn að fela hringinn og var með hann í rassvasanum.“

Gyfli fraus í bónorðsræðunni sjálfri sem hann hafði undirbúið, en náði að bjarga sér með nýrri sem hann spann á staðnum. „Hún sagði alla vega já,“ sagði Gylfi.

Músíkalskt par. Söngstjörnur giftast

Söng- og turtildúfurnar Salka Sól Eyfeld og Arnar Freyr Frostason ákváðu, sumarið 2017, að gifta sig. Þau urðu fræg hvort í sinni hljómsveitinni, Salka með reggíbandinu Amabadama og Arnar með rappsveitinni Úlfur Úlfur, og kynntust á tónleikum.

Salka greindi frá trúlofuninni á Instagram-síðu sinni:

„Þessi spurði mig hvort ég vildi verða eiginkonan hans og ég sagði hell yeah bro!!“

Miklar breytingar hjá Sólrúnu og Frans Sólrún Diego stendur í stórræðum.

Tími mikilla breytinga er þessa stundina í lífi samfélagsmiðlastjörnunnar Sólrúnar Diego. Hún er þekkt fyrir að gefa þrif- og húsráð á Snapchat og gaf út metsölubók fyrir þar síðustu jól. Hún hefur nú ákveðið að segja skilið við Snapchat og beina kröftum sínum að Instagram.

Þá eru líka breytingar á hennar einkahögum. Hún og unnusti hennar, Frans Veigar Garðarsson, eru að flytja í stórt hús í Mosfellsbænum og ganga í hnapphelduna í sumar.

Categorie: Islanda

Arnar tók risastórt skref með lítið sjálfstraust: ,,Þeir voru bara, hver er þessi gaur?“

DV - Mar, 19/02/2019 - 21:53

Hlaðvarpsþátturinn, 90 mínútur hefur hafið göngu sína en um er að ræða þátt sem Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is stýrir.

Rætt verður um fótbolta við áhugaverða gesti í vetur, farið verður um víðan völl.

Gestur þáttarins að þessu sinni er Arnar Gunnlaugsson sem er einn af merkilegri knattspyrnumönnum sem Ísland hefur átt, hann var undrabarn. Arnar á tvíburabróðir, Bjarka Gunnlaugsson sem einnig náði í fremstu röð í fótboltanum.

Arnar er einn af nokkrum Íslendingum sem hafa reynt fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni.

Arnar lék með Bolton í úrvalsdeildinni tímabilið 1997 til 1998 og lék þá 15 leiki fyrir liðið í efstu deild.

Arnari tókst ekki að skora mark í deildinni það tímabil en var svo frábær í Championship-deildinni tímabili seinna og var keyptur til Leicester.

Sjálfstraust Arnars var ekki mikið er hann samdi við Bolton en hann hafði upplifað erfiða tíma hjá Sochaux í Frakklandi.

Eftir að hafa stoppað stutt hjá ÍA hér heima þá ákvað Colin Todd, stjóri Bolton, að taka sénsinn og fékk Arnar til félagsins í úrvalsdeildinni sem var rosalegt stökk.

,,Það gerðist eitthvað á næstu tveimur vikum, á undirbúningstímabilinu. Ég fann það að ég væri komin heim, þetta var mitt level, enska úrvalsdeildin,“ sagði Arnar.

,,Við spiluðum æfingaleik og ég var strax kominn í liðið og það gekk vel. Ég fann að stuðningsmenn voru bara: ‘Hver er þessi gaur?’

,,Ég fann að þeir tóku mjög fljótt við mér og þá var ekkert aftur snúið. Svo byrjar úrvalsdeildin og ég kem inná í leikjum og er farinn að spila gegn Arsenal, Aston Villa, Stan Collymore, Gareth Southgate. Ég fann það bara að ég væri jafn góður og þessir gaurar.“

,,Ég var kominn í gott form og þetta tímabil var geðveikt fyrir mig. Þrátt fyrir að ég hafi byrjað þrjá leiki þá spilaði ég mikið, ég var alltaf fyrsti varamaður inn.“

,,Ég fann það að þegar leið á leikinn þá voru áhorfendur farnir að kalla og umfjöllun í blöðunum af hverju ég spilaði ekki meira.“

,,Það var samt hárrétt sem Colin Todd gerði, hann þekkti mína sögu í Frakklandi og var hægt og rólega að byggja mig upp.“

Arnar segir að Todd hafi gert mikið fyrir sig og kenndi sér á meðal annars mikilvæga lexíu sem borgaði sig.

,,Colin Todd kenndi mér eina mjög mikilvæga lexíu. Ég átti það til að yfirspila og klappaði boltanum of mikið og ég gerði það á röngum stað á vellinum.“

,,Hann sagði mér að fara ofar á völlinn og gera það á síðasta þriðjungnum. Hann sagði mér að vera meira effective. Það eru fullt af leikmönnum sem eru með eintóm skæri á miðju vallarins, hvaða gagn gerir það?“

,,Ertu að leggja upp mörk eða ertu að skora mörk? Nei, ókei þá ertu ekki tía eða nía. Hann kenndi mér það svolítið.“

Categorie: Islanda

Opnar sig um erfiða tíma á Old Trafford: ,,Eftir eitt rifrildi þá var sambandið aldrei eins“

DV - Mar, 19/02/2019 - 21:38

Angel Di Maria, leikmaður Paris Saint-Germain, hefur opnað sig um tíma sinn hjá Manchester United.

Di Maria var hjá United tímabilið 2014/2015 en stoppaði stutt hjá félaginu og var fljótt farinn til Frakklands.

Hann kennir Louis van Gaal, fyrrum stjóra United, um hvernig gekk á Old Trafford.

,,Ég var hjá Manchester United og allt var í fínu lagi með Van Gaal fyrstu tvo mánuðina,“ sagði Di Maria.

,,Eftir eitt rifrildi þá var sambandið ekki eins. Sambandið var aldrei eins eftir það.“

,,Við rifumst vegna þess að Van Gaal var alltaf að sýna mér slæma og neikvæðia hluti sem hélt aftur af mér.“

,,Einn daginn sagði ég við hann að mig langaði ekki að sjá þessa hluti og spurði hann af hverju hann gæti ekki sýnt mér jákvæða hluti.“

,,Honum líkaði ekki við hvernig ég talaði við hann og eftir það þá byrjuðu vandamálin.“

Categorie: Islanda

Æðisleg kaka sem öskrar afmæli

DV - Mar, 19/02/2019 - 21:30

Þessi dásamlega kaka er mjög einföld í bakstri og tilvalin í næsta afmæli.

Afmæliskaka

Hráefni:

260 g mjúkt smjör
1½ bolli sykur
¾ bolli púðursykur
3 egg
1 msk. vanilludropar
3 bollar hveiti
1½ tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
2¼ bolli hvítt súkkulaði, grófsaxað
1 bolli kökuskraut

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið ílangt kökuform, sirka 33 sentímetra langt, og klæðið það með smjörpappír. Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman í skál. Þeytið smjör, sykur og púðursykur saman í annarri skál. Bætið vanilludropum og eggjum saman við og þeytið vel. Bætið hveitiblöndunni saman við og hrærið. Blandið 1½ bolla af hvítu súkkulaði saman við með sleif eða sleikju sem og ¾ bolla af kökuskrauti. Hellið deiginu í formið og skreytið með ¼ bolla af súkkulaði og restinni af kökuskrautinu. Bakið í um 30 mínútur. Kælið. Bræðið restina af súkkulaðinu og skreytið kökuna með því.

Categorie: Islanda

Þetta er nokkurra vikna gamall sonur minn og hann er kannski með mislinga: „Og ég er reið. Öskureið“

DV - Mar, 19/02/2019 - 21:00

Maður liggur nú í einangrun á Landspítalanum með mislinga.  Maðurinn kom með flugi frá Filippseyjum 14. febrúar og ferðaðist með vélum Icelandair (FI455) frá Lundúnum og síðan Air Iceland Connect (NY356) frá Reykjavík til Egilsstaða 15. febrúar.

Í ljósi þessara tíðinda birtir Bleikt á ný frásögn konu sem fór með son sinn í hefðbundna skoðun og í ljós kom að hann var með mislinga. Frásögn konunnar var fyrst birt fyrir nokkrum árum en fór aftur á flug á þessu ári á hinum ýmsu samskiptamiðlum. Gefum Jennifer orðið:

„Þann 9. febrúar fékk ég símhringingu frá heilbrigðisyfirvöldum, þar sem mér var tilkynnt að sonur minn, ég og móðir mín gætum hugsanlega verið smituð af mislingum eftir að við fórum með hann í hefðbundna læknisskoðun þegar hann var 15 daga gamall þann 27. janúar. Ég fékk að vita að manneskja, sem greindist síðar með mislinga, hafi verið á biðstofunni á sama tíma og við.

Það fylgdi sögunni að þessi manneskja hefði verið á biðstofunni  einni til einni og hálfri klukkustund áður en við komum. Ég fékk einnig að vita að mislingar eru taldir geta smitast með lofti og geti verið í loftinu og á yfirborði hluta í allt að tvær klukkustundir eftir að sýktur einstaklingur hefur verið á svæðinu.

Ég var spurð hvort ég hefði verið bólusett við mislingum. Það hef ég.

En sonur minn, Griffin, hann hefur ekki verið bólusettur vegna aldurs.

Mér var ráðlagt að vera ekki nærri litlum börnum. Ef ég ynni nálægt börnum ætti ég ekki að fara til vinnu. Ég vinn nálægt börnum alla daga, heima hjá mér. Nú sit ég heima með Griffin og 3 ára systur hans, Aurelia, sem hefur aðeins fengið eina MMR bólusetningu enn sem komið er. Tæknilega séð þá er hún einnig í hættu á að fá mislinga. Við eigum að halda okkur heima og fylgjast með hugsanlegum sjúkdómseinkennum: Hita, hósta, nefrennsli. Ef við fáum eitthvert þessara einkenna eigum við að hringja í læknirinn okkar og skipuleggja komu okkar til hans. Við verðum að vera heima í einangrun þar til 17. febrúar en þá eru þeir 21 dagar sem mislingar geta hugsanlega brotist út á liðnir.

Griffin er því nú barn Schrödingers. Bæði með mislinga og ekki. Þar til hann sýnir einkenni smits eða þar til 7 dagar til viðbótar eru liðnir. Annað hvort.

Og ég er reið. Öskureið.

Ég er ekki reið við fólkið í biðstofunni og kenni því ekki um. Ég hefði líklega gert það sama . . . maður verður veikur og fer til læknis. Ég hef enga hugmynd um hver saga þeirra er og mun aldrei vita. En ég veit eitt:

Ef þú hefur valið að láta ekki bólusetja barnið þitt eða þig, þá kenni ég þér um.

Ég kenni þér um.

Alltof lengi hefur þú hamlað sameiginlegum vörnum okkar. Við höfum veitt þér þau FORRÉTTINDI sem fylgja bólusetningum. Í staðinn gafst þú mér þessa viku. Viku í helvíti. Viku, þar sem ég veit ekki ef SMÁBARNIÐ mitt fær sjúkdóm sem getur hugsanlega valdið DAUÐA.

DAUÐA!

Skoðum þetta nánar. Leggjum spilin á borðið.

Þú hefur ENGA HUGMYND um hvað þessi „hugsanlega útkoma“ þýðir. ENGA HUGMYND. Ég veit það. Því miður veit ég það.

Heldur þú að þú sért að vernda barnið þitt fyrir einhverju smotteríi? Það ertu ekki að gera. Það er ekki bólusett við því.

Heldur þú að þú sért að vernda þau fyrir einhverfu? Þú ert ekki að því. Það eru engin, engin, vísindaleg rök sem sanna tengsl bólusetninga og einhverfu. Ef þú vilt frekar nota Google en vísindi skaltu gúggla „prove me wrong“ og ég skal þá með ánægju kalla þig fávita og illa upplýstan.

Heldur þú að þú sért að vernda þau með seyðum og hómópatíu og jákvæðum hugsunum og með því að dansa við kertaljós þegar tungl er fullt? Það ertu ekki að gera. ÉG VERNDA BARNIÐ ÞITT. Við verndum barnið þitt. Með því að vera umhyggjusamir heimsborgarar sem er annt um okkur sjálf, samborgara okkar og þá sem eru veikastir fyrir. Þess vegna bólusetjum við okkur sjálf og börnin okkar.

Heldur þú að þú sért að vernda þau með því að leyfa þeim að borða skóflur fullar af mold og með því að takmarka notkun sýklalyfja og með því að borða lífrænan mat? Það ertu ekki að gera. Sem óbólusettur einstaklingur ertu aðeins verndaður með góðum gjörðum okkar. VIÐ LEYFUM ÞÉR AÐ NJÓTA FORRÉTTINDA vegna vilja okkar til að láta bólusetja okkur og börnin okkar.

Veistu hverju bóluefni vernda börnin þín fyrir? Verkjum. Þjáningum. Óbætanlegu tjóni. Dauða.

Þú myndir vera fyrstur til að skrá þig í bólusetningu ef þú hefðir minnstu hugmynd um hvernig það er að missa barn. Þú myndir skríða um götur og biðja, BIÐJA um bóluefni handa dýrmætu börnunum þínum því það er það sem ég hefði gert, ef ég hefði getað, til að bjarga dóttur minni.

Staðreyndin er að það var ekkert bóluefni fyrir hana. Ekki fyrir sjúkdóminn sem hrjáði hana. Og hún dó. Hún lést aðeins fimm og hálfs árs gömul og hún er farin.

Ég sé þessum röksemdum dreift á Facebook og Twitter þar sem vitnað er í fölsuð vísindi og „rannsóknir“ sem er löngu búið að sýna fram á að voru ekki marktækar. En þessu linnir ekki og Jenny McCarthy segir „Þetta er MITT val“ um að láta ekki bólusetja . . . og ég hugsa með mér . . . hvað hefðir þú gert ef barnið þitt lægi fyrir dauðanum? Myndir þú gefa því bóluefni sem er vísindalega sannað að er öruggt og áhrifaríkt og taka áhættuna á þeim agnarlitlu aukaverkunum sem það getur haft? Eða myndir þú frekar láta það deyja, vitandi að barnið myndi þá örugglega ekki verða einhverft (sem þau myndu hvort sem er ekki verða)?

Þú skalt ekki DIRFAST að segja mér að þú myndir ekki bólusetja þau. Ekki dirfast. Þú hefur enga hugmynd um hvernig það er að ganga í gegnum það sem við gerðum.

Svo, horfðu á Griffin. Segðu mér af hverju hann þarf að gjalda fyrir heimsku þína og ófyrirleitinnar misnotkunar þinnar á vörnum okkar hinna? Segðu mér það.

Sjö dagar til viðbótar þar ég veit að barnið mitt er óhult. Sjö dagar til viðbótar.

Hvernig er vikan ykkar annars, þið sem eruð á móti bólusetningum?

Categorie: Islanda

Kona dæmd fyrir að hrækja framan í lögreglumann á 17. júní

DV - Mar, 19/02/2019 - 20:30

Kona sem hrækti framan í lögregluþjón við skyldustörf í Austurstræti þann 17. júní, síðastliðið sumar, var í gær dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi. Konan er af erlendum uppruna.

Konan játaði brot sitt skýlaust og kvaðst iðrast þess. Hún hefur áður undirgengist sektargreiðslur vegna umferðarlagabrota og fíkniefnamisferlis. Þar sem konan játaði brot sitt og sýndi iðrun var dómurinn skilorðsbundinn í tvö ár. Enginn sakarkostnaður varð af málinu.

Categorie: Islanda

Byrjunarlið Lyon og Barcelona – Enginn Coutinho

DV - Mar, 19/02/2019 - 20:16

Lyon frá Frakklandi fær alvöru verkefni í kvöld er liðið tekur á móti stórliði Barcelona.

Um er að ræða leik í Meistaradeild Evrópu en 16-liða úrslit keppninnar halda áfram.

Fyrri leikurinn er í Frakklandi og má sjá byrjunarliðin hér.

Lyon: Lopes, Dubois, Marcelo, Denayer, Mendy, Ndombele, Aouar, Traoré, Depay, Terrier, Dembélé.

Barcelona: Ter Stegen, Semedo, Piqué, Lenglet, Alba, Rakitic, Busquets, Sergi Roberto, Messi, Suárez, Dembélé

Categorie: Islanda

Byrjunarlið Liverpool og Bayern Munchen – Fabinho í vörn

DV - Mar, 19/02/2019 - 20:14

Fabinho byrjar í miðverði í kvöld er Liverpool tekur á móti Bayern Munchen í Meistaradeild Evrópu.

Um er að ræða leik í 16-liða úrslitum keppninnar en fyrri leikurinn er á Anfield í kvöld.

Hér má sjá byrjunarliðin.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, Matip, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Keita, Salah, Firmino, Mane.

Bayern Munchen: Neuer, Kimmich, Sule, Hummels, Alaba, Thiago, Martinez, Rodriguez, Gnabry, Coman, Lewandowski.

Categorie: Islanda

Lofa allt að fimm kílóa þyngdartapi á þremur dögum á herkúrnum

DV - Mar, 19/02/2019 - 20:00

Margir sjá það í hyllingum að finna töfralausn þegar kemur að þyngdartapi og missa eins mörg kíló og hægt er á stuttum tíma. Það útskýrir kannski vinsældir svokallaðs herkúrs undanfarið, en á heimasíðu kúrsins er því lofað að þeir sem fylgja mataræðinu geti misst allt að fimm kíló á þremur dögum.

Á herkúrnum þurfa þátttakendur að borða sérstök matvæli í morgunmat, hádegismat og kvöldmat í þrjá daga. Mataræðið einkennist af afar lágum hitaeiningafjölda og má aðeins borða rúmlega þúsund hitaeiningar fyrsta daginn.

Eftir fyrstu þrjá dagana má fólk borða það sem það vill, svo lengi sem það heldur sér undir fimmtán hundruð hitaeiningum á degi hverjum.

Hér er dæmi um dagsmatseðil á herkúrnum:

Morgunmatur:

Bolli af svörtu kaffi
Hálft greip
Sneið af þurru, ristuðu brauði

Hádegismatur:

Hálfur bolli af túnfiski
Sneið af þurru, ristuðu brauði
Bolli af svörtu kaffi

Kvöldmatur:

85 grömm kjöt að eigin vali
Bolli af grænum baunum
Hálfur banani
Lítið epli
Bolli af ís

Categorie: Islanda

Vísindamenn heimsóttu nýja eldfjallaeyju – Verður skammlífari en Surtsey

DV - Mar, 19/02/2019 - 20:00
Fyrir fjórum árum hófst eldgos í eyjaríkinu Tonga í Kyrrahafinu. Eldgosið myndaði litla eyju á milli tveggja eyja sem fyrir voru. Nú hafa vísindamenn heimsótt eyjuna í fyrsta sinn en hún hefur óopinberlega verið nefnd Hunga Tonga-Hunga Ha‘apa.

Bandaríska geimferðastofnunin NASA segir að eyjan sé ein örfárra sem hafa myndast á undanförnum árum og lifað af í meira en nokkra mánuði. Surtsey er hugsanlega þekktasta eyjan sem hefur orðið til á síðustu áratugum og lifað af lengur en nokkra mánuði.

Það kom vísindamönnum á óvart að á eyjunni er nokkuð blómlegt dýra- og plöntulíf. Hún virðist ætla að verða langlífari en talið var í fyrstu því eyðing hennar er mun hægari en ætlað var. Af þessum sökum er eyjan áhugaverð fyrir vísindamenn, eins og Surtsey, því þeir hafa tækifæri til að fylgjast með hvernig dýr og plöntur leggja nýja eyju undir sig.

 

Hún er ekki ýkja stór. Mynd:Dan Slayback © Nasa

Líklegt má telja að þau dýr og plöntur sem berast til eyjunnar komi frá eyjunum tveimur, sem eru nálægt henni.

Vísindamenn reikna með að eyjan hverfi á næstu 30 árum því hún er úr ösku sem harðnaði þegar hún komst í snertingu við sjóinn en ekki kviku. Af þeim sökum verður hún ekki langlíf.

Categorie: Islanda

Kynþáttaárás á Englandi: Þekktur mannréttindafrömuður barinn fyrir að vera Pakistani

DV - Mar, 19/02/2019 - 19:30

Maajid Nawaz heitir þekktur mannréttindafrömuður á Englandi sem meðal annars hefur barist gegn íslömskum öfgaöflum. Nawaz er frá Pakistan og var áður fyrr íslamskur hryðjuverkamaður en varð fyrir hugarfarsbreytingu eftir fangelsisvist í Egyptalandi. Í gær réðst hvítur maður á Maajid í London og kýldi hann fyrir það eitt að vera Pakistani. Maajid lýsir árásinni svo á Facebook-síðu sinni:

„Í kvöld varð ég fyrir kynþáttahatursárás fyrir utan Soho-leikhúsið, þegar ég var að beygja mig eftir símanum mínum sem hafði fallið í stéttina. Árásarmaðurinn, hvítur karlmaður, kallaði mig „Pakistanasvín“ þegar hann barði mig í andlitið með einhvers konar innsiglishring og hljóp síðan í burtu eins og hugleysingi. Hann stal engu. Hann var bara rasisti. Það voru vitni að árásinni sem heyrðu kynþáttaummæli hans og hafa gefið vitnisburð. Lögreglan er með andlit hans á upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Það lítur út fyrir að ég muni bera ör á enninu það sem eftir er. En við munum finna þig, huglausi rasistinn þinn og þú munt upplifa breskt réttlæti.“

Það er nokkuð meinlegt að Nawaz hefur einna helst beitt sér gegn öfgum og rasisma meðal múslima á Englandi. Samtök hans, The Quillan Foundation, létu fyrir tveimur árum gera skýrslu sem leiddi í ljós að yfirgnæfandi meirihluti meðlima í glæpagengjum sem tæla og misnota kerfiðsbundið unglingsstúlkur og barnungar stúlkur eru múslimar. Um tíma starfaði Nawas með hinum þekkta og umdeilda hægri sinnaða aktívista, Tommy Robinson, sem mjög hefur látið að sér kveða í baráttu gegn meintri íslamsvæðingu Bretlands. Árásarmaðurinn var hins vegar, eins og fyrr segir, hvítur rasisti, sem barði Nawaz fyrir það eitt að vera Pakistani.

 

Categorie: Islanda

Vestfirskir listamenn: Kristinn Pétursson

Bæjarins Besta - Mar, 19/02/2019 - 19:25

Kristinn Pétursson

  1. 17. nóvember 1896 Bakka Hjarðardal Dýrafirði. D. 1. september 1981.

Öndvegisverk: Brjóstmyndir af Sygtryggi Gunnlaugssyni og Einari Benediktssyni, Seyðtún íbúðarhús með vinnustofu í Hveragerði.

Saga Dýrfirðingsins Kristins Péturssonar er einsog ein af sögum Charles Dickens þar sem hinir fátæku ná ekki bara að lifa heldur og brjóstast til mennta og frama. Allt þetta á við  Kristinn þó árin hafi fennt allt of mikið yfir hans merku listaverk. Hann var án efa einn af áhrifamestu listamönnum síðustu aldar, ávallt leitandi og rannsakandi í list sinni.

 

Kvalist upp

Einsog einhver Óliver Twist er Kristinn orðinn munaðarlaus 6 ára snáði. Er þá komið í fóstur á Næfranesi og má sannlega segja að þar hafi hann kvalist upp frekar en alist. Til að bæta á harminn hófst hrina veikinda fyrst kirtlaveiki þar á eftir berklar sem hann fékk í bakið og varð bakveikur uppfrá því. Huggun sína sótti hann í bækur sem hann hafði frjáls afnot af hjá góðum nágranna nefnilega Sighvati Grímssyni á Höfða. Gott ef  Hvati hafi ekki einnig átt þátt í því að koma pilti í skóla hjá Sigtryggi Gunnlaugssyni á Núpi 1914. Seinna átti Kristinn eftir að gera brjóstmynd af lærimeistaranum á Núpi sem nemendur færðu skólamanninum á 70 ára afmæli hans.

Þrátt fyrir allt mótlætið og fátæktina brýst hann áfram til mennta og útskrifast úr Kennaraskólanum í borginni árið 1919. En listin var farin að brjótast í honum og loks skráir hann sig í teiknitíma hjá hinum vestfirska Guðmundi Thorsteinssyni, Muggi, og eftir það hjá Þórarni B. Þorlákssyni. Listin hafði tekið yfir og hann silgdi til Noregs til frekari myndmennta. Stúderaði m.a. við Listakademíuna í Osló og eftir það bæði í Kaupmannahöfn og París. Það er sannað að fátt skipti ungan listamann meira en að sjá sem mest af list og það allskonar list. Næstu árin ferðast Kristinn víða til að nema og sjá heimslistina. Hann var einsog sinn fyrsti kennari, Muggur, leitandi í listinni og margt heillaði, þeir voru báðir útum allt og leitandi alla tíð. Fyrst var það höggmyndin, svo greip málverkið hann og þaðan lá leiðin í flest form myndlistarinnar.

 

Seyðtún

Árið 1933 er Kristinn alkominn til Íslands uppfullur af hugmyndum og lætur nú sannlega verkin tala eða öllu heldur sjást. Heldur fjölda sýninga bæði í Reykjavík og víðar  m.a. á Ísafirði 1938. Sýndi í húsi Kaupfélags Ísfirðinga og víst var þar margt að sjá. Má þar nefna einar 60 raderingar sóttar í hinn gjöfula goð- og þjóðsagnaheim. Raderingu eða svartlist, hafði Kristinn numið sérstaklega í Svartlistaskóla í Vínarborg. Blaðið Vesturland fjallar vel um sýninguna og hvetur sveitunga sína til að ekki bara sjá verk þessa unga Vestfirðings heldur og kaupa enda séu þau ekki dýr.

Á þessum tíma var svartlistin, grafíkin, lítt kunn hér á landi og átti Kristinn sannlega þátt í að kynna þetta skemmtilega myndmál fyrir landanum. Vann hann fjölmargar grafík myndir bæði af verðbúðum sem gömlum byggingum, torfbæjum og kirkjum landsins. Kristinn fór þó mun víðar í myndstílum og formum málaði sem teiknaði en strax árið 1937 er farið að tala um að hann fari sínar eigin leiðir í listinni. Höggmyndir gerði hann margar nægir þar að nefna brjóstlíkön af  Sveini forseta Björnsyni og af skáldunum Einari Bernediktssyni og Davíð Stefánssyni. Af öðrum kunnum höggmyndum Kristins má nefna verkin Madonna í íslenskum skautbúning og Sláttumaður.

Árið 1940 flytur hann í þá listamannabæinn Hveragerði. Vel má gerast svo stórtækur og segja að þarna hafi verið sannkölluð listamannnýlenda hvar bjuggu m.a. Ríkharður Jónsson, Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum svo aðeins nokkir séu nefndir. Í þessum blómlega bæ reisti Kristinn sér íbúðarhús með vinnustofu og nefndi Seyðtún. Árið 1954 heldur hann þar veglega listsýningu sem er jafnframt hans síðasta. Eftir það má segja að listamaðurinn hafi lokað sig frá umheiminum en þó haldið áfram að þróa sig í listinni. Hafði hann glímt við heilsuleysi alla tíð og hefur það líklega haft eitthvað að segja. Kristinn var líka einn af þeim listamönnum sem vildi að verkin sýndu listamanninn frekar en vera í eilífri síbylju að gorta sig af eigin ágæti í fjölmiðlum. Stundum virðist það vera aðalmálið að vera í endalausum gorttölum og ef ekki þá kunna á exel til að geta framfleytt sér af listinni.

Kristinn sat þó eigi aðgerðalaus því þegar hann andaðist tæpum þremur áratugum síðar arfleiddi hann Listasafn alþýðu af verkum sínum sem voru 1367 talsins. Listin átti hug hans allan allt til enda. Hann ritaði sögu sína og listhugleiðingar í einum þremur veglegum handritum sem hefur því miður aldrei komið út. Húsið Seyðtún var einnig í stöðugri þróun og óhætt er að segja að sé hans mesta verk eða einsog hann sagði sjálfur: „Sennilega er ég og vinnustofa mín næstum orðið eitt í vissum skilningi, ég get ekki hugsað mér að vinna list annars staðar.“

 

Elfar Logi Hannesson

Aðalheimild:

Sérvitringurinn í Seyðtúni. Morgunblaðið 29. maí 2015

 

 

Categorie: Islanda

,,Þetta var síðasti leikur Sarri“ – Ítalska verkefnið er búið

DV - Mar, 19/02/2019 - 19:20

Maurizio Sarri er búinn að stýra Chelsea í sínum síðasta leik eftir 2-0 tap gegn Manchester United í gær.

Þetta segir Chris Sutton, fyrrum leikmaður liðsins, en Chelsea tapaði 2-0 í bikarnum og er úr leik.

Gengið hefur verið slæmt hjá þeim bláklæddu undanfarið sem spila brátt við Manchester City í úrslitum deildarbikarsins.

,,Þetta var síðasti leikur Sarri hjá Chelsea. Ítalska verkefnið er búið,“ sagði Sutton.

,,Hann er alveg búinn. Þessi Sarri-bolti er bilaður. Eigandi Chelsea mun hugsa hvort þeir nái efstu fjórum sætunum.“

,,Hann hugsar hvort þeir geti farið í Manchester City leikinn með sjálfstraust? Kemur ekki til greina.“

,,Sagan segir okkur að eigandi Chelsea er ekkert að leika sér eða grínast.“

Categorie: Islanda