Islanda

Ronaldinho tapaði fyrir dæmdum morðingja

DV - 1 ora 43 min fa

Ronaldinho er enn í fangelsi í Paragvæ og bíður nú dóms, hann mætti til landsins með falsað vegabréf og var handtekinn vegna þess

Ronaldinho hefur dvalið í fangelsi þar í landi síðustu vikur og óvíst er hvenær hann kemst út.

Á meðan reynir Ronaldinho að stytta sér stundir og leikur sér í fótbolta við aðra ganga. Fjölmiðlar í Paragvæ greina frá því að hann hafi tapað í skallatennis.

Ronaldinho var í liði með fangaverði en þeir töpuðu fyrir Edgar Ramirez Otazu sem situr inni fyrir morð og Yoni David Mereles Martinez, innbrotsþjófi.

Ronaldinho var eitt sinn besti knattspyrnumaður í heimi en hann hefur upplifað erfiða tíma síðustu ár utan vallar.

Categorie: Islanda

Víðir kvíðir páskunum með tilheyrandi ferðalögum„Áhyggjuefni ef fólk fer að hópast mikið saman“

DV - 1 ora 51 min fa

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, kvíðir páskunum þar sem fólk eigi það til að ferðast mikið á þeim tíma. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarnarteymis ríkislögreglustjóra rétt í þessu. Hann segir að til skoðunnar hafi komið að banna sumarbústaðarferðir en þess í stað hafi verið ákveðið að biðla fremur til almennings í von um tillit og skilning.  Ekki stendur til að herða samkomubann um páskana.

Víðir segir að á slíkum ferðalögum sé þrennt sem hann hefur áhyggjur af. Í fyrsta lagi sé fólk þá á ferðinni og í aukinni hættu á að lenda í slysum á vegum landsins, en slíkt setji álag á viðbragðsaðila og heilbrigðiskerfið sem eigi nóg með COVID-faraldurinn. Í öðru lagi sé fólk þá mikið að hópast saman í sumarbústaðabyggðum en á þeim svæðum sé heilbrigðisþjónusta af skornum skammti og eigi nóg með að anna þeim sem fasta búsetu eigi í byggðarlaginu.  Í þriðja lagi sé það áhyggjuefni þegar fólk safnist saman að heiman að nýtt umhverfi fái það til að gleyma þeim góðum siðum sem þeir hafi nú tileinkað sér og gæti því ekki að fjarlægðarmörkum við aðra, faðmist, takist í hendur og þess háttar.

Hann hvetur landsmenn því til að ferðast innanhúss yfir páskanna frekar en innanlands.

 

Categorie: Islanda

Ný bók: Undir yfirborðinu Norska laxeldisævintýrið

Bæjarins Besta - 1 ora 58 min fa

Bókaútgáfan Ugla hefur gefið út bókina Undir yfirborðinu Norska laxeldisævintýrið. Í umsögn útgefanda um bókina segir meðal annars:

Laxeldi í sjókvíum hefur verið stundað við Noreg í um hálfa öld og telst nú einn af máttarstólpum norsks atvinnulífs. Laxeldið hefur treyst byggð í dreifbýli og leitt til ofsagróða þeirra sem að því standa.

En margvíslegur umhverfsivandi hefur hlotist af laxeldinu í Noregi. Gríðarlegt magn af laxalús og laxaúrgangi hefur farið í hafið, mjög mikið af eldislaxi hefur sloppið úr kvíum og blandast villtum laxi, auk þess sem sjúkdómar í eldisfiskinum hafa reynst erfiðir viðureignar.

Stórfyrirtæki í norsku laxeldi hasla sér nú völl við Ísland. Þau beita sömu eldisaðferðum hér og í Noregi.

Í þessari bók segir norski blaðamaðurinn Kjersti Sandvik sögu norska laxeldisævintýrisins. Hún lýsir bæði því sem vel hefur tekist og þeim vandamálum sem hlotist hefur af uppbyggingu laxeldis í Noregi.

Categorie: Islanda

Þórólfur undrandi á fólki sem biður um undanþágu frá sóttkví

DV - 2 ore 3 min fa

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir furðar sig á því hvað margt fólk biður um undanþágu frá sóttkví og samkomubanni. Hann bendir á að þessar aðgerðir hafi skilað okkur þeim árangri sem náðst hefur í að hefta COVID-19 faraldurinn. Mjög órökrétt sé að veita mörgum undanþágu frá sóttkví því þá sé hætta á að faraldurinn færist í aukana á ný.

Þetta kom fram á upplýsingafundi dagsins um COVID-19.

49 greindust smitaðir síðasta sólarhring sem er nokkur fækkun. 47 af 510 sýnum á veirufræðideildinni reyndust jákvæð, sem gerir 9%. Aðeins tvö af um 900 sýnum í skimum Íslenskrar erfðagreiningar reyndust jákvæð, eða 0,2%.

Ellefu eru á gjörgæslu, þar af níu í sóttkví.

Að sögn Þórólfs hafa áður verið sveiflur milli daga en líklegast sé að við séum í hægum vexti. Ekki sé hægt að slá því föstu að við séum að hægja á vextinum því áður hefur þetta sveiflast upp og niður. En þær aðgerðir sem beitt hefur verið séu augljóslega að skila árangri og sá árangur sé hvatning til að halda aðgerðunum áfram.

Af þeim sem greindust síðasta sólarhring voru 29% verið í sóttkví en það hlufall hefur oft farið vel yfir 50%.

„Við erum á lægstu spálínu líkansins hvað varðar fjölda einstaklinga. Okkur er að takast að hægja verulega á þessum faraldri en samt er mikið á lag á Landspítalanum, sérstaklega gjörgæslunni,“ sagði Þórólfur.

Samkomubann stendur til 13. apríl en Þórólfur sagði líklegt að þær aðgerðir yrðu framlengdar. Upplýst verður öðru hvoru megin við helgina hvernig framhaldið verður eftir 13. apríl.

Sjá nánar um tölfræði COVID-19 á covid.is.

 

Categorie: Islanda

Smitrakningar smáforrit verður tilbúið á morgun – Byggir á tvöföldu samþykki

DV - 2 ore 8 min fa

Smáforritið sem hefur verið hannað til að auðvelda smitrakningarteymi Landlæknis að rekja mögulegar smitleiðir kórónuveirunnar, verður að líkindum tilbúið til notkunar á morgun. Forritið mun byggja á svonefndu tvöföldu samþykki, sem felu í sér að notandi samþykkir fyrst að forritið skrái ferðir notanda með GPS kerfi og hins vegar síðara samþykki sem til kemur ef viðkomandi greinist með smit. Þá þarf notandi að veita smitrakningarteymi samþykki fyrir að fá upplýsingar frá forritinu.  Frá þessu greindi Alma D.  Möller Landlæknir á upplýsingafundi almannavarnarteymis ríkislögreglustjóra rétt í þessu.

Forritið verður betur kynnt á morgun en samkvæmt Ölmu hefur það þegar fengið vottun.

„Kerfið hefur þegar verið vottað af óháðum aðila varðandi öryggi“

Categorie: Islanda

Nýr hópur á Facebook slær í gegn – Ert þú „hjálplegur“ á Facebook?

DV - 2 ore 13 min fa

Facebook getur verið frábær dægrastytting og hægt að finna þar stórkostlega sértæka hópa til þess að gerast meðlimur í til þess að stytta sér stundir. Chertrúarsöfnuðurinn komst til dæmis nýlega í fréttirnar en þar deilir fólk eingöngu orðabröndurum sem snúast um söngkonuna Cher.

Facebook býður einnig upp á sérstaka hópa þar sem hægt er að auglýsa notaða hluti til sölu eða gefins, staði þar sem fólk getur skiptst á ráðum varðandi plöntur og gæludýr og margt fleira. Samskipti inni á slíkum hópum geta verið með ýmsu móti, bæði afar hjálpleg en einnig alls ekki svo hjálpleg…

Einhver benti á að þetta var í þriðja eða fjórða skiptið sem sami aðili skrifaði inn á „Gefins kettir“ hópinn að hann/hún ætti ekki ketti. Kannski tilefni til þess að laga það vandamál?

Og stundum getur Facebook líka gert mann alveg gráhærðan. Nettröll eiga þar sjö dagana sæla og tjá sig með óviðeigandi athugasemdum. Þá virðist vera til töluvert af fólki sem tjáir sig óhindrað í kommentakerfum Facebookhópanna, að því er virðist, algerlega án þess að hafa lesið almennilega það sem það er að setja athugasemd við.

Elski vinur. Það er nú gott að vita að þú ert kominn með allt frá Heimkaupum. En það var bara alls ekki spurningin…

„Hjálplegustu“ kommentin, er stórskemmtilegur hópur þar sem meðlimir deila „hjálplegum“ athugasemdum sem þeir eða aðrir hafa fengið frá nettröllum, fyndnu fólki eða fólki sem hefir einfaldlega ekki haft fyrir því að lesa það sem það er að kommenta á.

Beðið var um ráð ÁN BRAUÐS… Og þú mælir með brauði? Nýlega tjáði tónlistamaðurinn og myndasöguteiknarinn Lóa Hjálmtýsdóttir sig í Facebook-hópnum og segist vera sérleg áhugamanneskja um kommentakerfi fjölmiðla.

„…dýrka þegar fólk kemur með random pælingar eða minningar við fréttir. Sérstaklega fréttir um eitthvað ömurlegt og kommentið kemur út eins og viðkomandi hafi enga samkennd.“

 

Það er kannski hægt að nota hitann frá köttunum þínum til þess að vaska upp eða hita vatn í baðið?

 

Categorie: Islanda

Djammið gæti kostað hann skipti yfir til Manchester United

DV - 2 ore 20 min fa

Lögreglan í Birmingham vill ná tali af stórstjörnu Aston Vlla, Jack Grealish efitr umferðaróhapp í borginni í fyrradag. Grealish var í gleðskap alla nóttina, þrátt yrir að útgöngubann sé í landinu. Grealish hafði deginum áður beðið fólk um að halda sig heima á meðan kórónuveiran gengur yfir þar í landi. Útgöngubann er á Bretlandseyjum.

Aston Villa hefur sektað Grealish hressilega, en hann þarf að greiða 150 þúsund pund í sekt.

Grealish var í gleðskap hjá Ross McCormack fyrrum liðsfélaga sínum hjá Villa, alla nóttina. Hann keyrði á tvo kyrrstæða bíla. Lögreglan í Birmingham var kölluð á staðinn en Grealish tók dótið sitt úr bílnum og fór af vettvangi. Lögreglan mun yfirheyra hann á næstu dögum.

Manchester United hefur horft til þess að kaupa Grealish í sumar en mörg ensk blöð segja að þessi hegðun gæti komið í veg fyrir það, Ole Gunnar Solskjær hefur verið að herða agareglur félagsins.

Grealish var ungur og vitlaus fyrir nokkrum árum og gerði mörg mistök, margir vonuðust til þess að þessi 24 ára leikmaður hefði þroskast.

Categorie: Islanda

Dómari fær lausn frá Landsrétti degi áður en hann tekur til starfa að nýju

DV - 2 ore 32 min fa

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Ásmundar Helgasonar í embætti dómara við Landsrétt frá 17. apríl 2020. Ásmundur var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og gegndi því starfi allt þar til hann var skipaður dómari við Landsrétt frá 1. janúar 2018.

Fyrr í þessum mánuði baðst Ásmundur lausnar frá þeirri skipun og hefur dómsmálaráðherra ákveðið að leggja til við forseta Íslands að sú beiðni verði samþykkt og honum veitt lausn frá 16. apríl næstkomandi.

Ásmundur fær því lausn frá Landsrétti degi áður en hann verður skipaður dómari við Landsrétt að nýju, en Ásmundur var metinn hæfastur af fjórum umsækjendum um stöðuna.

Aðrir umsækjendur voru Ástráður Har­alds­son héraðsdóm­ari, Ragn­heiður Braga­dótt­ir lands­rétt­ar­dóm­ari og Sandra Bald­vins­dótt­ir héraðsdóm­ari.

Við skipun Ásmundar losnar embætti eins dómara í Landsrétti og verður það embætti auglýst laust til umsóknar innan tíðar.

Categorie: Islanda

Auknu fiskeldi fagnað

Bæjarins Besta - 2 ore 57 min fa

Bæjarráð Bolungavikur segir í samþykkt sinni frá síðustu viku að það lýsi yfir mikilli ánægju með niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar vegna endurskoðunar áhættumats erfðablöndunar vegna laxeldis í sjókvíum þar sem lagt er til að leyfa laxeldi í Isafjarðardjúpi.

„Niðurstaðan er að heimilt verður að ala 12.000 tonn af laxi í Ísafjarðardjúpi. Ljóst er að þessi ákvörðun mun hafa mikil jákvæð áhrif á samfélagið við Djúp á næstu árum og áratugum.
Bæjarráð skorar á stjórnvöld að leggja til nægilegt fjármagn og mannafla í þær stofnanir
sem sinna leyfisveitingum til fiskeldisfyrirtækja til að hægt sé að afgreiða leyfi án tafa.“

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga ályktaði einnig í síðustu viku um hið nýja áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun. Lögð er áhersla á mikil efnahagsleg áhrif af 20% auknum heimildum til fiskeldis sem komi glögglega fram á Vestfjörðum og Austfjörðum. Samtökin vilja að ríkið og stofnanir geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að jákvæðra áhrifa gæti sem fyrst sem leiði til fjölgunar atvinnutækifæra og aukinnar þjóðarframleiðslu.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu. Þau voru stofnuð 2012 og eru 24 sveitarfélög aðilar að samtökunum.

Categorie: Islanda

Lögreglan óskar eftir þinni aðstoð – Hefur þú séð þennan bíl?

DV - 3 ore 10 min fa

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir svartri bifreið af gerðinni Ford Fiesta með skráningarnúmerinu PDU32. Bílnum var stolið frá Þrúðvangi í Hafnarfirði á föstudaginn.

„Sjáist bíllinn í umferðinni þá vinsamlegast hringið tafarlaust í 112, en upplýsingum um hvar bíllinn er niðurkominn má sömuleiðis koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu.

Categorie: Islanda

Rúmlega fertug kona lést eftir útskrift af bráðamóttökunni

DV - 3 ore 12 min fa

Fjörutíu og tveggja ára kona lést skömmu eftir að hún hafði verið útskrifuð af bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í síðustu viku. RÚV greinir frá.

Í skoðun er hvort álag á spítalanum hafi verið orsakavaldur í þessum harmleik.

Konan var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku á fimmtudaginn í síðustu viku og var hún talin hafa fengið blóðsýkingu. Hún var send heim í hjólastól nokkrum klukkustundum eftir komuna á  bráðamóttökuna. Hún lést á föstudagsmorguninn.

Í svörum Landspítalans til RÚV kemur fram að ekki sé hægt að segja til um það á þessari stundu hvort álag á bráðamóttökunni vegna kórónufaraldursins hafi eitthvað haft með þetta að gera. Segir jafnframt að álag á bráðamóttökunni hafi verið með minna móti frá því COVID-19 faraldurinn hófst.

 

Categorie: Islanda

Tobba er nýr ritstjóri DV

DV - 3 ore 18 min fa

Þorbjörg Marinósdóttir hefur verið ráðin nýr ritstjóri DV en Samkeppniseftirlitið samþykkti í liðinni viku kaup útgáfufélagsins Torgs á DV, dv.is og tengdum miðlum. Þorbjörg, eða Tobba eins og hún er kölluð, kemur til starfa á næstu vikum og segir verkefnið vera gríðarlega spennandi.

 

„Ég hlakka til að takast á við að ritstýra DV og dv.is. Netmiðillinn ásamt undirmiðlunum er einn sá fjölsóttasti hér á landi og nú tekur við að laga þar  til í efnisvali og efnistökum. Við viljum að hann sé léttur og skemmtilegur miðill sem segi harðar féttir í bland en sé umfram allt með vönduð efnistök. DV hefur undanfarið verið gefið út í pappír á föstudögum og því verður haldið áfram. Þar eru mikil tækifæri, að gefa út fjölbreytt helgarblað með fréttum í bland við vandað afþreyingarefni,“ segir Tobba. Hún segir að ristjórnarstefna DV verði nú löguð að ritstjórnarstefnu Torgs, sem felur óhjákvæmilega í sér nokkrar breytingar. „Þegar við höfum hrundið breytingunum í framkvæmd er vonin sú að fólk muni sjá breytt blað og breyttan vef með ferskum áherslum. Virðing fyrir viðmælendum er mikilvæg og við munum leggja áherslu á það,“ segir hún.

Jóhanna Helga Viðarsdóttir, forstjóri Torgs, tekur í sama streng. „Við erum afskaplega lukkuleg með að fá Þorbjörgu til liðs okkur hjá við Torgi. Hún er með víðtæka reynslu úr heimi fjölmiðla og hefur verið kraftmikill stjórnandi í fyrri störfum. Þá er hún með skýra sýn varðandi hvernig fjölmiðil Torg hefur hug á að gefa út undir merkjum DV. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.“

Þorbjörg er fjölmiðlafræðingur að mennt og með mastersgráðu í verkefnastjórnun. Hún hefur einnig skrifað fjölda bóka, stýrt sjónvarpsþáttum, starfað í útvarpi og á fjölmiðlum svo sem Séð og Heyrt, SkjáEinum þar sem hún sat í framkvæmdastjórn og Morgunblaðinu.

Hlé verður nú gert á útgáfu DV í pappírsformi meðan unnið er að breytingum útlits og efnistaka og stefnt að útgáfu nýs og öflugra DV á allra næstunni. Ekkert hlé verður á starfsemi dv.is og undirvefja þess.

Categorie: Islanda

Guðni Bergsson: Við þurfum á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu okkar reksturs

DV - 3 ore 34 min fa

Guðni Bergsson, formaður KSÍ ritar pistil á vef sambandsins í dag þar sem farið er yfir tímana sem nú eru, en COVID-19 veiran hefur haft gríðarlegt áhrif á íþróttastarf.

Rekstur íþróttafélaga hefur verið erfiður og verður enn erfiðari nú þegar mikil óvissa ríkir. Guðni kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. ,, Við þurfum þar á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu og uppbyggingu okkar reksturs. Ég vil í þessu sambandi þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra þátt. Stjórnendur félaganna, leikmenn, þjálfarar og aðrir eru að gera sitt til þess að láta þetta ganga upp,“ skrifar Guðni

Pistill Guðna í heild:
Kæru félagar.
Við höfum upplifað saman erfiða og skrítna tíma undanfarnar vikur. Framvindan hefur verið hröð og ógnvekjandi á köflum með aðgerðum sem við höfum ekki upplifað áður. Í svona aðstæðum áttar maður sig líka á því hvað það er margt sem er gott við okkar samfélag og hversu vel við stöndum saman þegar á reynir.

Við í knattspyrnuhreyfingunni höfum, eins og aðrir hópar í samfélaginu, horft fram á mikla röskun og síðan algjöra stöðvun á okkar starfi. Heilsa okkar er að veði og við verðum að gæta þess öll í sameiningu að vernda þau okkar sem eru veikust fyrir smiti. Við þurfum að forgangsraða. Það reynir á reksturinn eins og hjá öðrum en með samstilltum aðgerðum og hjálp opinberra aðila þá komumst við í gegnum þetta. Áður en til faraldursins kom höfðum við haft áhyggjur af rekstri og rekstarumhverfi aðildarfélaganna, en nú þurfti svo sannarlega að bregðast við. Ég trúi því að út úr þessu öllu komi á endanum sterkari hreyfing með betri rekstur og áherslur en áður.

Nú liggja fyrir úrræði ríkisstjórnarinnar og vonandi geta sem flest okkar innan aðildarfélaganna nýtt sér þau. Við höfum verið að vinna að tillögum um að laga þessi úrræði að okkar hreyfingu, sem gefur okkur betri og sanngjarnari niðurstöðu. Við þurfum þar á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu og uppbyggingu okkar reksturs. Ég vil í þessu sambandi þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra þátt. Stjórnendur félaganna, leikmenn, þjálfarar og aðrir eru að gera sitt til þess að láta þetta ganga upp.

Verkefni KSÍ vegna COVID-19 hafa verið af ýmsum toga og unnin í samstarfi með félögum, öðrum hagsmunaaðilum og sérfræðingum eftir því sem við á hverju sinni. Upplýsingar um framvindu mála hafa verið birtar reglulega hér á vef KSÍ og með því að smella á borða á forsíðunni er hægt að sjá samantekt þeirra greina og upplýsinga sem birtar hafa verið. Til að stikla á stóru má nefna viðræður og önnur samskipti við stjórnvöld og Reykjavíkurborg, greiningarvinnu með Deloitte (minnisblað um lagafrumvarp, líkan um rekstur félaga, leiðbeiningar um útfærslu á umsóknum), starf vinnuhóps um fjármál félaga (aðlögun laga um úrræði vegna launagreiðslna, fyrirframgreiðsla og fyrirgreiðsla til aðildarfélaganna). Svo má auðvitað ekki gleyma „Áfram Ísland“ átakinu okkar á samfélagsmiðlum, sem gengur út á að hvetja unga iðkendur og fjölskyldur þeirra, og raunar þjóðina alla til dáða og til að halda áfram að hreyfa sig. Þar spila leikmenn landsliðanna okkar stórt hlutverk með jákvæðum skilaboðum og æfingum. Mörg félög hafa einnig verið með álíka verkefni á sínum miðlum, beint til sinna iðkenda, og gert af myndarskap.

Það mun birta til um síðir og við munum hefja aftur æfingar og mótahald. Íslenskur fótbolti á bjarta framtíð fyrir sér og það verður spennandi verkefni að þróa hann áfram. Grasrótarstarfið okkar er á heimsmælikvarða þökk sé góðri aðstöðu, vel menntuðum og færum þjálfurum ásamt miklum metnaði og dugnaði leikmanna sem og stjórnenda. Við eigum fullt inni sem betur fer, sérstaklega á afrekssviðinu bæði hjá félögunum og KSÍ. Við ætlum okkur að njóta fótboltans áfram innan vallar sem utan og þjóna samfélaginu okkar í leiðinni.

Við erum öll í sama liði! Áfram Ísland!

Kveðja,

Guðni Bergsson, formaður KSÍ

Categorie: Islanda

Segir björgunarpakkann ekki ná til þeirra bágstöddustu – „Bank­arn­ir geta beðið. Við eig­um það inni hjá þeim.“

DV - 3 ore 43 min fa

„Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru ekki að koma til móts við þau bág­stödd­ustu í sam­fé­lag­inu. Þau gleym­ast eina ferðina enn. Ég segi gleym­ast því ekki ætla ég rík­is­stjórn­inni að hafa lagt í björg­un­ar­leiðang­ur þar sem viðkvæm­ustu þjóðfé­lagsþegn­arn­ir eru vilj­andi skild­ir eft­ir á flæðiskeri. Stjórn­ar­liðar segja þetta fyrsta skrefið og gera þurfi meira en minna. Þrátt fyr­ir það læt­ur rík­is­stjórn­in fá­tækt fólk enn bíða eft­ir rétt­læt­inu,“

segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í grein í Morgunblaðinu í dag.

Hún segir björgunarpakka ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 ekki ná til þeirra sem mest þurfa á honum að halda:

„Er furða þótt ég sé undr­andi á aðgerðarpakk­an­um sem aug­ljós­lega er ætlað að slá skjald­borg um fyr­ir­tæk­in og fjár­magn­söfl­in á kostnað al­menn­ings og heim­il­anna í land­inu? Eru aðgerðirn­ar sniðnar að ör­yrkj­um og öldruðum sem enga fram­færslu hafa um­fram strípaða fram­færslu al­manna­trygg­inga? Hvað með heim­il­is­laus sem lifa nú við öm­ur­legri aðstæður en nokkru sinni fyrr? Telja má víst að þörf­in fyr­ir starf­semi SÁÁ verði af aug­ljós­um ástæðum aldrei meiri en í kjöl­far þess áfalls sem við verðum fyr­ir nú. Sam­tök­in missa nú mest­allt sjálfsafla­fé. Erum við að verja þau þessu áfalli? Svör­in eru nei.“

Bankarnir geta beðið

Inga segir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hamra á því að Ísland standi vel að vígi efnahagslega og eigi að geta varið heimili og fyrirtæki gegn áhrifum Covid-19. Hún skorar hinsvegar á lánastofnanir að fresta öllum greiðsluseðlum og segir bankana geta beðið:

„Ég lýsi undr­un á að greiðslu­byrði hús­næðislána heim­il­anna bera enn sömu vexti og samið var um fyr­ir daga vaxta­lækk­ana Seðlabank­ans, um leið og nú á að lækka banka­skatt­inn strax um 11 millj­arða króna. Er það rétt for­gangs­röðun á al­manna­fé að hjálpa bönk­un­um sem settu okk­ur á haus­inn 2008? Það sem verra er, að í stað þessa að tryggja að þess­ar aðgerðir nýt­ist viðskipta­vin­um þeirra, þá send­ir rík­is­stjórn­in þeim vin­sam­leg til­mæli um að þeir lækki nú vexti sína. Þar við sit­ur.

Í kjöl­far hruns­ins sótti margt fólk vinnu og tekj­ur til annarra landa, s.s. Nor­egs. Þannig tókst mörg­um að standa í skil­um. Nú er þessi mögu­leiki lokaður. Ég skora því á all­ar lána­stofn­an­ir lands­ins að setja heim­il­in í skulda­skjól; senda ekki einn ein­asta greiðslu­seðil út fyrr en við sjá­um til lands í þeirri miklu óvissu sem nú rík­ir. Rík­is­stjórn­in ætti að beita sér fyr­ir þessu. Bank­arn­ir geta beðið. Við eig­um það inni hjá þeim.“

Categorie: Islanda

Icelandair sameinast Air Iceland Connect og Árni hættir – „Erum við að leita allra leiða til hagræðingar“

DV - 3 ore 57 min fa

Starfsemi Icelandair og innanlandsflugs Air Iceland Connect verður sameinuð samkvæmt tilkynningu frá Icelandair Group. Sameina á flugrekstrarsvið, markaðsmál, mannauðsmál, fjármálasvið og upplýsingatækni.

Framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, Árni Gunnarsson mun láta af störfum og taka við framkvæmdastjórastöðu Iceland Travel, en staða Árna verður lögð niður í kjölfarið. Iceland Travel er félag innan Icelandair Group og mun Björn Víglundsson, núverandi framkvæmdastjóri Iceland Travel, hverfa til annarra starfa eftir að samþættingarvinnu lýkur.

Félögin tvö munu áfram starfrækja tvö aðskilin flugrekstrarleyfi og áhafnir hjá Air Iceland Connect verða starfsmenn þess félags áfram.

„Í því ástandi sem nú ríkir erum við að leita allra leiða til hagræðingar í rekstri Icelandair Group og teljum við mikil tækifæri í því að samþætta flugrekstur okkar enn frekar,“

segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í tilkynningu.

Categorie: Islanda

Ísafjarðarbær: Bryndís Ósk Jónnsdóttir verðandi sviðsstjóri

Bæjarins Besta - 4 ore 9 min fa

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að Bryndís Ósk Jónsdóttir, lögfræðingur verði ráðinn sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Tillagan verður afgreidd á bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður á fimmtudaginn.

Bryndís Ósk Jónsdóttir er búsett á Ísafirði og hefur verið  staðgengill lögreglustjórans á Vestfjörðum.

Alls bárust 17 umsóknir um starfið en tveir drógu umsaóknir sínar til baka þannig að valið stóð á milli 15 umsækjenda.

Categorie: Islanda

Hrun blasir við kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi – „Ein af fyrstu atvinnugreinum sem leggjast af í kreppu – Í einu orði sagt hræðilegt“

DV - 4 ore 47 min fa

Félag kvikmyndagerðarmanna(FK) stóð fyrir könnun á meðal félagsmanna sinna í mars til að meta þau alvarlegu áhrif sem kórónuveiran hefur haft á starfsemi og afkomu kvikmyndagerðarmanna. Greint er frá niðurstöðum hennar á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Könnunin var framkvæmd í formi spurningakönnunar á vefnum dagana 25. – 27. mars og svarendur voru alls 130. Um er að ræða fólk sem starfar á ýmsum sviðum innan kvikmyndagerðar. Þar af eru flestir starfandi í tækjadeild, framleiðsludeild, leikstjóradeild og eftirvinnsludeild. Mikill meirihluti svarenda er sjálfstætt starfandi, lausráðið fólk (freelance) og eigendur smærri fyrirtækja eða einyrkjar.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

 • Nánast allir þátttakendur í könnuninni hafa á undanförnum 8 vikum lent í því að verkefnum er frestað eða verkefnum er frestað eða hætt við þau. Um er að ræða innlend og erlend verkefni af ýmsum toga, s.s. leiknar myndir, heimildamyndir, seríur, auglýsingar, sjónvarpsefni af ýmsum toga o.s.frv.
 • 60% svarenda telja sig ekki geta haldið starfi sínu gangandi lengur en í mánuð vegna tekjumissis í Covid19 faraldrinum.
 • 47% telja að samningar (tekjur) muni lækka í kjölfar faraldursins, tæplega 37% til viðbótar eru óvissir um það.
 • 53% telja sig munu finna fyrir tekjutapi nú þegar eða innan viku, 34% á innan við mánuði.
 • 65% telja sig þurfa aðstoð strax eða innan mánaðar.

Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi velti nærri 15 milljörðum árið 2018.

Algjört óvissuástand framundan

Þátttakendur voru beðnir um að svara því hvaða áhrif faraldurinn hefði á þeirra störf. Hér eru nokkur svör birt:

 • Ástandið stöðvar alla framleiðslu og þar af leiðandi möguleika til tekjuöflunar

 

 • Það þyrfti að vera sjóður sem væri aðgengilegur bæði fyrir verktaka og
  framleiðslufyrirtæki fyrir aðstæður sem krefjast frestunar með stuttum fyrirvara

 

 • Kvikmyndagerð er yfirleitt ein af fyrstu atvinnugreinum sem leggjast af í kreppu.

 

 • Þar sem ég var að klára mynd á síðasta ári, er missirinn aðallega möguleikar á að sýna
  myndina, hérlendis (úti á landi) og erlendis, en þegar hafa 10 hátíðir ekki orðið af.

 

 • Sé ekki fram á að fá tekjur næstu mánuði.

 

 • Lamar mína starfsemi um óákveðin tíma.

 

 • Þetta er bara í einu orði sagt hræðilegt, og er maður virkilega að þurfa að breyta um
  starfsvettvang eftir 22 ára starf í greininni ! Ég á erfitt með að kyngja því.

 

 • Sem kvikmyndagerðarmaður geta fæstir lifað á launum úr faginu, en þurfa að stunda
  freelance vinnu á öðrum sviðum eins og ferðaþjónustu/rútuakstur og leiðsögn. Og ekki er
  útlitið gott á þeim markaði.
Categorie: Islanda

Næturbrölt á tímum útgöngubanns kostar hann 26 milljónir

DV - 4 ore 48 min fa

Lögreglan í Birmingham vill ná tali af stórstjörnu Aston Vlla, Jack Grealish efitr umferðaróhapp í borginni í fyrradag. Grealish var í gleðskap alla nóttina, þrátt yrir að útgöngubann sé í landinu. Grealish hafði deginum áður beðið fólk um að halda sig heima á meðan kórónuveiran gengur yfir þar í landi. Útgöngubann er á Bretlandseyjum.

Aston Villa hefur sektað Grealish hressilega, en hann þarf að greiða 150 þúsund pund í sekt.

Grealish var í gleðskap hjá Ross McCormack fyrrum liðsfélaga sínum hjá Villa, alla nóttina. Hann keyrði á tvo kyrrstæða bíla. Lögreglan í Birmingham var kölluð á staðinn en Grealish tók dótið sitt úr bílnum og fór af vettvangi. Lögreglan mun yfirheyra hann á næstu dögum.

Sektin sem Grealish þarf að greiða fer í gott málefni en þessi öflugi leikmaður, er regluega í fréttum fyrir heimskulega hluti utan vallar.

Categorie: Islanda

Hrund um ástandið vegna kórónuveirunnar: „Það gefur ykkur smá innsýn í líf öryrkja“

DV - 4 ore 58 min fa

„Nú á þessum fordæmalausu tímum verja margir öllum sínum tíma heima hjá sér. Það gefur ykkur smá innsýn í líf öryrkja,“ segir Hrund Pálmadóttir, sem hefur verið öryrki síðan 2010.

Í dag verja margir Íslendingar tíma sínum heima vegna kórónuveirunnar. Vegna þessa lítur Hrund svo á að nú sé kjörið tækifæri að opna umræðuna um líf öryrkja, sem margir hverjir eyða tíma sínum heima.

„Ég er öryrki, sem þýðir að ég eyði mest af mínum tíma heima hjá mér. Suma daga er ég nánast allan daginn í rúminu og get ekkert gert. Ég er orkulaus, verkjuð og stari oft út í loftið og finnst tíminn ekki líða. Ég hef oft fundið fyrir því að fólk haldi að mér finnist það bara frábært og ég hafi valið mér það. Fáir sjá mig í þessu ástandi. Flestir sjá mig þegar ég er hress sem fyrir vikið gerir það að verkum að margir halda að þannig sé ég alltaf,“ segir hún.

Ekki grín

Hrund vill benda á upplifun öryrkja til að minnka fordóma gagnvart þeim.

„Það eru margir að upplifa svipað ástand og öryrkjar upplifa á hverjum degi. Þetta er ekkert grín,“ segir hún.

„Ég vil benda á þetta til að minnka fordóma og fordómar minnka með því að fólk skilji, og það getur ekki skilið nema að það sé sett í svipaðar aðstæður,“ segir Hrund.

„Mér finnst þetta þörf umræða og nú er rétti tíminn fyrir hana því nú sér fólk að það er ekkert grín að vera heima. Hvað áttu að gera? Stara út um gluggann?“ segir hún og bætir við:

„Margir eru einnig að upplifa hvernig það er að vera ekki með heilsu en þurfa að sjá um börn og vinnuna á sama tíma.“

Hrund hefur verið öryrki síðan 2010. Brann út og fékk krabbamein

Mörg persónuleg áföll og veikindi urðu til þess að Hrund varð öryrki árið 2010. Síðan þá hefur hún upplifað ýmislegt, til dæmis hefur hún sigrast á krabbameini.

„Þetta er ekki allt neikvætt. Ég lít á mína reynslu með jákvæðum augum. Þetta hefur gert mig að betri manneskju og ég skil lífið betur en margir, og ég tel mig heppna vegna þess,“ segir Hrund og bætir við að það neikvæða í málinu sé viðhorf fólks til öryrkja.

„Það eru ekki allir í samfélaginu með þessi viðhorf, en það eru margir. Vinkonur mínar hafa meira að segja sagt við mig: „Vá þú lítur svo vel út, ertu ekki að fara að vinna?“ Ég hef líka fengið að heyra að ég þurfi að hreyfa mig, auðvitað hreyfi ég mig þá daga sem ég er góð,“ segir hún og heldur áfram:

„Ég er ekki að væla, ég er bara að segja að fólk skilur ekki hvernig líf öryrkja er. Fólk sér það betur nú en áður hvernig til dæmis einangrun getur farið með fólk. Þú ert kannski ekkert andlega veik þegar þú veikist, en það gerist smám saman að þú verður andlega veik. Því þetta er svo rosalega erfitt. Það eru margir sem hafa ekkert verið andlega veikir þegar þeir verða öryrkjar, en fá svo kvíða og þunglyndi og alls konar einkenni varðandi andlega líðan,“ segir hún.

Að lokum spyr Hrund fólk hvernig því líður heima.

„Ég vil taka það fram að ég er ekki að væla, ég vil bara vekja athygli á þessu. Fyrir marga öryrkja er ástandið núna ekki mikil breyting á lífinu, heldur viðvarandi ástand. Það sem ég vona að þessi umræða skili er að fólk átti sig á því að það velur sér enginn að verða öryrki. Mig langar bara að spyrja ykkur finnst ykkur ekki æði að vera alltaf heima?“

Categorie: Islanda

Birkir Kristinsson ræðir dvöl sína í fangelsi: „Ég óska engum þess að þurfa að sitja inni“

DV - 5 ore 19 min fa

Birkir Kristinsson, fyrrum landsliðsmarkvörður í fótbolta er í ítarlegu viðtali við Fótbolta.net. Þar fer hann yfir feril sinn en einnig um dvöl sína í fangelsi á Íslandi. Birkir átti frábæran feril sem knattspyrnumaður en starfaði síðan í Glitni fyrir hrun.

Birkir var viðskiptastjóri hjá Glitni. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2014 fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun sem og brotum á lögum um ársreikninga sem sneru að 3,8 milljarða króna láni Glitnis árið 2007 til félags sem var í eigu Birkis.

Birkir fór í fangelsi árið 2015 og vildi fara strax inn, þetta var rétt fyrir jólin 2015 en hann vildi ekki láta það bíða og krafðist þess að hefja afplánun um leið.

„Þetta var í sjálfu sér ömurleg tímasetning. Ég held að allar tímasetningar séu ömurlegar í þessu en erfitt rétt fyrir jól gagnvart fjölskyldunni og þeim sem standa mér næst. Það var erfitt en ég var búinn að ákveða að ef þetta færi á versta veg þá myndi ég hefja afplánun strax því ég vildi ekki hafa þetta yfir hausamótunum á mér,“ sagði Birkir í ítarlegu viðtali við Fótbolta.net.

„Ég fékk að fara inn viku seinna, kom inn á Skólavörðustíginn sunnudeginum á eftir og var fluttur á Kvíabryggju nokkrum dögum seinna. Ég var kominn þangað í kringum 20. des.

Hann segist ekki óska neinum þess að þurfa að sitja í fangelsi. „Þetta voru skrítnir tímar, ég óska engum þess að þurfa að sitja inni. Ég bað ekki um það og langaði ekki til þess en þegar það var kominn dómur var ekkert annað en að fylgja þeim dómi og bíta í það súra epli og takast á við það.“

Categorie: Islanda